Fréttir

7.9.2005

Rótarýklúbbur Árbæjar vígir vatnspóst í Elliðaárdal

Á fundi Rótarýklúbbs Árbæjar 1. september sl var vígður vatnspóstur í Elliðaárdal að viðstöddum fulltrúum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Er hann staðsettur við göngustíga í dalnum rétt fyrir neðan Árbæjarkirkju. Vatnspósturinn er reistur að frumkvæði Rótarýklúbbsins og í góðu samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur Elliðaárdalinn í sérstakri umsjón sinni.

Aðdragandinn að framkvæmdinni er sá að minnast skyldi tveggja tímamóta, annars vegar 100 ára afmælis Rótarýhreyfingarinnar í heiminum og hins vegar 15 ára afmælis Rótarýklúbbs Árbæjar með því að standa að verkefni í hverfinu sem íbúar þess og borgarinnar nytu góðs af. Var leitað til Orkuveitunnar um samstarf vegna umhverfisstefnu hennar og umhverfisverkefna sem hún hefur staðið fyrir í Elliðaárdalnum.

Árangurinn af samstarfinu er vatnspóstur eða drykkjarfontur sem hannaður er af Þórði Hall, myndlistarmanni en Reynir Vilhjámsson landslagsarkitekt annaðist umhverfishönnun. Þess má geta að klúbbfélagar lögðu fram drjúga vinnu við frágang næsta umhverfis vatnspóstsins og hefur svæðið nú hlotið heitið Rótarýlundur.

Ástæða er til að vekja athygli þeirra fjölmörgu sem ganga og hlaupa um Elliðaárdalinn á þessum nýja áningarstað þar sem þeir geta svalað þorsta sínum og notið hvíldar í fagurri náttúru.

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning