Fréttir

7.9.2005

URR - Unglinganámskeið Rótarý í Ræðulist

Á Íslandi er, eins og víða annars staðar, ekki nóg gert af því að undirbúa börn og unglinga í því að koma fram og tala máli sínu. Samfélagsþjónustunefnd Rótarýumdæmisins á Íslandi hefur því ákveðið að standa fyrir átaki í grunnskólum landsins til að kenna 10. bekkingum að tjá sig opinberlega og þannig að undirbúa þau betur fyrir lífið með því að þjálfa þau. Til þess viljum við virkja sem flesta af rótarýfélögum okkar og fá þá til að taka þátt í þessu verkefni.

Við erum að leita fyrir okkur með endanlegt form á þessu en vinnuheiti okkar er: URR - Unglinganámskeið Rótarý í Ræðulist

 

Verkefni þetta er sprottið af vinnu Rótarýklúbbsins Reykjavík ? Miðborg (RRM) á síðasta vetri, en það var prufukeyrt í Hagaskóla með mjög góðum árangri. Gríðarlegur áhugi er fyrir þessu hjá unglingunum og skólastjórnendum. Nokkrir skólar eru þegar á biðlista að fá það til sín haustið 2005.

Þetta er eitthvað sem mun gagnast öllum ungmennum á Íslandi um ókomin ár, verkefnið er þakklátt, eykur hróður Rótarý og er fyrsta skref okkar í því að þróa Leiðtogaskóla Rótarý í takt við RYLA (Rotary Youth Leadership Awards) verkefnið.

Við höfum hugsað okkur að halda námskeið í Reykjavík í október/nóvember fyrir væntanlega ?þjálfara?, þar sem við vonumst til að komi áhugasamir rótarýfélagar. Þar verður farið yfir það efni sem nú liggur fyrir og það betrumbætt með virkri þátttöku þeirra sem koma. Það ræðst síðan eftir þátttöku hvort efnt verði til samskonar kynningar úti á landi. Auk þess munum við setja þetta efni á heimasíðu RRM (www.rotary.is/midborg), þar sem það verður ykkur aðgengilegt og þá geta meðlimir nefndarinnar komið í heimsókn í klúbbana og kynnt þetta sérstaklega ef óskað er.

Við óskum eftir því að þetta verkefni verði kynnt í þínum klúbbi sem fyrst og klúbburinn tilnefni einn eða fleiri sem muni koma á námskeiðið. Við teljum að þetta sé sérsniðið klúbbþjónustuverkefni, sem eigi erindi í hvern skóla á landinu.

Markmiðið er að ná til að minnsta kosti eins skóla í hverju fræðsluumdæmi og síðar meir að ná til eins skóla í hverju klúbbumdæmi

Markmiðið er að á vormisseri 2006 verði að minnsta kosti einn fulltrúi frá hverjum klúbbi með skóla sem vill taka þátt í þessu.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning