Fréttir
  • Gissur útför

28.5.2013

Virðuleg útför Gissurar Ó. Erlingssonar, fyrrv. umdæmisstjóra

Meðlimir umdæmisráðs Rótarý á Íslandi báru kistuna úr kirkju

Gissur Ó. Erlingsson, fyrrum umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, andaðist hinn 18. maí sl., 104 ára að aldri. Hann var elstur íslenskra karlmanna er hann  lést. Gissur var fæddur í Borgarfirði eystra en ólst upp á bóndabýli í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Útför hans var gerð frá Grafarvogskirkju 27. maí að viðstöddu fjölmenni, þar á meðal mörgum rótarýfélögum. Séra Vigfús Þór Árnason jarðsöng.Útför Gissurar Ó. Erlingssonar í Grafarvogskirkju

Meðlimir umdæmisráðs Rótarý á Íslandi báru kistuna úr kirkju, þau Kristján Haraldsson, núverandi umdæmisstjóri, og fyrrverandi umdæmisstjórar Tryggvi Pálsson, Margrét Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason, Ellen Ingvadóttir og verðandi umdæmisstjórar Björn B. Jónsson og Guðbjörg Alfreðsdóttir. Benjamín Magnússon, fyrrv. forseti Rótarýklúbbs Kópavogs var einnig líkmaður. Gissur varð félagi í þeim klúbbi árið 1989.
Gissur Ó. Erlingsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928 og síðar námi frá Loftskeytaskólanum. Var hann starfandi loftskeytamaður á togurum og kaupskipum, m.a. á stríðsárunum. Hann var stöðvarstjóri úti á landi á vegum Póst- og símamálastofnunar og Ríkisútvarpsins. Er hann gegndi starfi stöðvarstjóra í Neskaupstað beitti hann sér fyrir stofnun Rótarýklúbbsins þar árið 1965, var stofnfélagi og fyrsti varaforseti hans og síðar heiðursfélagi. Gissur var einnig í Rótarýklúbbi Héraðsbúa og forseti 1974-1975. Hann var umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi 1975-76.
Gissur var mikill áhugamaður um golf og stóð framarlega í félagsskap kylfinga fyrr á árum. Hann var mikill tungumálamaður, löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur og þýddi um 150 erlendar bækur á íslensku. Að þýðingarstörfum vann hann allt fram á allra síðustu ár. Fyrri kona Gissurar var Mjallhvít Margrét Jóhannsdóttir en hin síðari Valgerður Magnúsína Óskarsdóttir. Þær eru báðar látnar. Afkomendur Gissurar eru rúmlega 150. Í nokkur ár voru sex ættliðir á lífi.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning