Elsti rótarýfélaginn
Gissur Ólafur Erlingsson er 104 ára í dag.
Elsti núlifandi rótarýfélaginn á Íslandi er Gissur Ólafur Erlingsson en hann er heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Neskaupsstaðar. Gissur, sem er lærður loftskeytamaður og löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi ólst upp í Reykjavík, í Haukalandi við Öskjuhlíðartaglið, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928. Hann byrjaði að þýða sínar fyrstu bækur er hann var á sjó sem loftskeytamaður en segist að eftir að hann fór á eftirlaun 68 ára hafi hann fyrst farið að þýða bækur af alvöru. Hann var mikill málamaður og nefndi hann ensku, þýsku, frönsku, norðurlandamálin og spænsku þegar hann var spurður um þau mál sem hann hafði þýtt úr. Mest segist hann hafa þýtt reyfara en þýðingarnar eru líklega komnar yfir 200 talsins.
Gissur býr í Seljahlíð, við góðan aðbúnað, gengur um með stuðningi en segist vera farinn að heyra illa, annars sé hann nokkuð sprækur. Þegar tekinn var fram fáni frá rótarýklúbbi í Venesúela sagði hann að það hafi verið mjög gaman að koma á fund þar. Sagðist hann þó ekki hafa farið oft á fundi erlendis.
Gissur var stofnfélagi Rótarýklúbbs Neskaupstaðar sem var stofnaður 13. júní 1965 og var fyrsti varaformaður hans en hann var aðalhvatamaður að stofnun klúbbsins að áeggjan Rótarýklúbbs Reykjavíkur.
Gissur var einnig í Rótarýklúbbi Héraðsbúa og var forseti klúbbsins 1974-1975 og síðan umdæmisstjóri 1975-1976. Hann var í Rótarýklúbbi Kópavogs frá 1989 og var hann heiðraður af klúbbnum sem Paul Harrisfélagi. Rótarýklúbbur Neskaupsstaður gerði hann svo að heiðursfélaga 2. nóvember 1993.
Rótarýhreyfingin óskar Gissuri til hamingju með afmælið.
Guðni Gíslason
Gissur lést 18. maí 2013.