Mappan góða
Það vakti athygli á Umdæmisþinginu hversu margir voru þar frá rótarýklúbbnum Borgum í Kópavogi. Þetta var fjörugur og líflegur hópur og greinilegt að rótarýhugsjónin er í hávegum höfð í klúbbnum. Til að gera þetta enn eftirminnilegra bauð klúbburinn í forláta möppu sem boðin var upp til að styrkja PolioPlus verkefnið.
Þannig var að tveim dögum fyrir þingið uppgötvaðist prentvilla framan á möppunum sem átti að afhenda á þinginu. Þetta var auðvitað ófært og í snatri voru pantaðar nýjar möppur og hinar gölluðu sendar í endurvinnslu. Umsjónarmenn þingsins áttuðu sig þó á því að oft verða ?gallaðir? gripir verðmætir með tímanum, ekki síst ef aðeins eru til fá eintök og ákváðu að halda eftir einni möppu. Sú mappa var boðin upp á hátíðarkvöldinu og var um tíma tvísýnt um það hver hreppti hana. Borgir sýndu mikið harðfylgi í uppboðinu og hrepptu gripinn fyrir 20.000 krónur sem renna beint í PolioPlus verkefnið. Þess þarf ekki að geta að Ólafur Helgi með grísinn græna var glaður yfir þessari viðbót í sjóðinn.
Umdæmisþing er vettvangur til að hitta aðra og skiptast á skoðunum og hugmyndum. Það er vert að hvetja rótarýfélaga til að mæta og eiga góða stund saman.