Rkl. Kópavogs útnefndi Eldhugann 2005
Ásgeir Jóhannesson var útnefndur sæmdarheitinu ?Eldhuginn 2005? á fundi Rótarýklúbbs Kópavogs 15. mars sl.
Ásgeir er fæddur á Húsavik 2. nóvember 1931. Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Guðmundsson,kennari og Sigríður Sigurjónsdóttir.Ásgeir er kvæntur Sæunni R.Sveinsdóttur og eiga þau þrjú börn. Þau hafa búið í Kópavogi í 42 ár.
Ásgeir hefur alla tíð verið mjög virkur þátttakandi í íslensku þjóðlífi og vart hægt að finna þann málaflokk, sem hann hefur ekki haft afskipti af. Viðurkenningu sem eldhugi ársins hlýtur hann fyrir störf í þágu eldri borgara og þann þátt sem hann átti í stofnun hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar. Grundvallarhugmynd að uppbyggingu íbúða fyrir aldraða, þar sem eignin er íbúans, sem þó þarf ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi né rekstri.
Hann veitti Sunnuhlíðarsamtökunum formennsku fyrstu 20 árin, en samtökin mynduðu 9 klúbbar í Kópavogi.
Annað stórvirki sem Ásgeir hefur að unnið snertir unga fólkið og er ekki síður þjóðfélagslega mikilvægt en að búa eldri borgurum betra ævikvöld, en það er frumkvæði að stofnun Fjölsmiðjunnar í Kópavogi, sem er framleiðslu- og verkþjálfunarsetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, sem lítillar menntunar hefur notið, er atvinnulaust og/eða á við félagsleg vandamál að stríða.
Að Fjölsmiðjunni standa Félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnunin, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Menntamálaráðuneytið og Rauði kross Íslands. Á annað hundrað ungmenni hafa notið starfsþjálfunar síðan Fjölsmiðjan tók til starfa.
Þessa stundina eru þar 50 nemar við margvísleg verkefni. Að auki njóta þau stuðnings kennara til áframhaldandi náms ef svo vill verkast. Árangur Fjölsmiðjunnar hefur hlotið einróma lof og þykir vera ein áhugaverðasta nýjungin á þessu sviði á síðari árum.
(af heimsíðu Rkl. Kópavogs)