Fréttir

4.5.2007

Eldhugi Kópavogs 2007 er 86 ára húsmóðir

Árlega veitir Rótarýklúbbur Kópavogs viðurkenningu til einstaklings eða einstaklinga sem þykja hafa skarað fram úr á einhverju sviði. Viðurkenningin nefnist Eldhuginn. Í ár hlaut viðurkenninguna Anna Bjarnadóttir húsmóðir í Kópavogi fyrir störf að félags- og mannúðarmálum. Anna hefur í meira en hálfa öld tekið virkan þátt í störfum frjálsra félagasamtaka, einkum Kvenfélags Kópavogs og Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Haukur Hauksson, formaður viðurkenningarnefndar Rótarýklúbbs Kópavogs, Eldhuginn Anna Bjarnadóttir og Þórir Ólafsson formaður Rótarýklúbbs Kópavogs en Önnu var afhent glerlistaverk í tilefni viðurkenningarinnar sem er eftir listamanninn Ingu Elínu.


Félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs ásamt Önnu Bjarnadóttir. Þetta var fyrsti fundur klúbbsins í Skátaheimilinu við Digranesveg, og þar verða fundirnir í framtíðinni.


Skátaheimilið í Kópavogi þar sem Rótarýklúbbur Kópavogs fundar nú.

Þar hefur hún lagt fram ómetanlegt félagsstarf í þágu samborgaranna og fátækra barna í þróunarlöndum. Anna sá m.a. um leikfimistíma í 25 ár á vegum Kvenfélags Kópavogs auk fjölda annara starfa. Árið 1984 mætti hún á fyrsta fund sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar Rauða krossins sem hófu sjúkravinastörf í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð sem þá hafði nýlega tekið til starfa. Hún hefur alla tíð síðan tekið þátt í því starfi. Auk þess beitti hún sér fyrir samstarfi Kvenfélags Kópavogs og Rauða krossdeildarinnar um að mynda starfshóp til að prjóna og sauma föt á fátæk börn í þróunarlöndunum. Anna hefur haft frumkvæði og haft umsjón með þessu starfi sl. 16 ár, skipulagt það og fengið fleiri aðila til samstarfs.

Á síðustu árum hefur þetta verkefni fengið nafnið ?Föt sem framlag? og hefur framleiðslan beinst að því að útbúa pakka með peysu, treyju, húfu, sokkum, teppi, handklæði og bleyjum fyrir börn á aldrinum 0-1 árs í þróunarlöndum. Þúsundir slíkra pakka hafa verið útbúnir í Kópavogi á sl. 15 árum undir ötulli forystu og í umsjón Önnu Bjarnadóttur.

Hefur Anna auk þess lagt til hluta af eigin húsnæði undir þessa starfsemi auk eigin orku og hugvit. Þetta starf hefur vakið almenna athygli og virðingu langt út fyrir bæjarmörk Kópavogs. Rauði krossinn hefur séð um að senda þessa pakka til þeirra landa þar sem talin er vera mest þörf fyrir þá, og hafa börn í Malawi og Gambíu einkum notið þess.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning