Fréttir

27.4.2007

Fréttir af starfi Rótarýklúbbs Akraness

Frá fundi í Haraldarhúsi

Vinna við endurnýjun á sérlögum klúbbsins er nú langt komin. Henni hefur verið stjórnað af Adam Þorgeirssyni, Guðmundi Guðmundssyni og Atla Harðarsyni.

Fundir hafa verið skemmtilegir og fróðlegir eins og jafnan áður og hafa félagsmenn fræðst um margt, nú síðast um það góða starf sem Rauði krossinn vinnur í þágu innflytjenda hér á Akranesi.

Einn viðburður í aprílmánuði er sérlega minnisstæður. Hann er klúbbfundur sem haldinn var þann ellefta í húsinu að Vesturgötu 32 á Akranesi sem Haraldur Böðvarsson og Ingunn Sveinsdóttir byggðu og bjuggu í frá árinu 1925.

Á þeim fundi las gestgjafinn, Haraldur Sturlaugsson, hluta af ræðu sem afi hans, Haraldur Böðvarsson, flutti á Rótarýfundi þann 1. desember árið 1949. Á þeim tíma var Haraldur Rótarýmaður og ræðan var starfsgreinaerindi hans. Í henni rakti hann feril sinn frá því hann keypti sinn fyrsta bát, sem var sexæringur, árið 1906. Sagan sem Haraldur sagði í þessari ræðu var ekki aðeins saga hans sjálfs heldur líka mikilvægur hluti af atvinnusögu Sandgerðis, Akraness og raunar alls landsins. Einnig gaf hún nokkra mynd af höfundi sínum.

Þegar Haraldur hafði lokið lestrinum af blöðum nafna síns og afa fengu gestir fræðslu um húsið og hluta af sögu þess, gengu síðan um og skoðuðu þann mikla fjölda ljósmynda og minja sem þar hefur verið safnað saman. Segja þeir heillar aldar sögu um útgerð og fiskvinnslu og hin miklu umsvif Haraldar Böðvarssonar og fyrirtækja sem hann stofnaði.

Einn gripur í húsinu vakti öðrum fremur athygli ritara en það var nákvæmt líkan af kútter Haraldi sem Böðvar farið Haraldar Böðvarssonar átti og nefndi eftir syni sínum sem þá var átta ára. Kútter þessi er viðfrægur af söngtexta sem margir kunna og er á þessa leið:

 

Kátir voru karlar

á kútter Haraldi

til fiskiveiða fóru

frá Akranesi.

 

Og allir komu þeir aftur

og enginn þeirra dó.

Af ánægju út að eyrum

hver einasta kerling hló.

 

Bestu kveðjur,

Atli Harðarson ritari.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning