Gljúfrabúinn og Rótarýbrúin
Fyrir um fjórum árum síðan komu félagarnir úr Rótarýklúbbi Akraness fyrir brú á Berjadalsána í Akrafjalli. Brúin var staðsett rétt fyrir ofan gljúfrin í Fjallinu. Í fyrstu voru þetta tveir plankar sem lágu saman yfir ána og var verra að fara yfir á þeim heldur en að klöngrast í ánni. Svona í gamni setti Jón Pétur Pétursson göngugarpur saman vísu um smíðina. Hún var svona:
Hægara verður nú um vik
víst mun leiðin skána
Heimsins mesta hænsnaprik
hafa sett á ána.
?Sennilega hefur þessi vísa borist þeim til eyrna því upp úr því reistu þeir hina bestu brú yfir þar sem plankarnir voru áður. Þessi brú var með handriðum og að mínu áliti hin besta smíð og klúbbnum til sóma. Árið eftir þá tóku þessir sömu aðilar sig til og enn skyldi laga leiðina upp á Fjall. Nú var ráðist í að setja tröppur upp Selbrekkuna. Þetta var gert úr plönkum og sívalningum. Að mínu áliti var þessi smíð slík hörmung í landslaginu að orð fá ekki lýst. Að fullorðnir menn láti sér detta slík vitleysa í hug finnst mér alveg með ólíkindum. Nú mundi fræðingastóðið kalla þetta sjónmengun en af því ég er svo gamall þá segi ég bara að þetta sé ljótt og meira að segja forljótt. Ef fólk kemst ekki upp Selbrekkuna án þess að fara eftir þessu klambri ætti það bara að vera heima, því að mínu áliti er ekkert gagn í þessu og óprýðir bara Brekkuna. Nú gæti fólk haldið að ég vissi ekki mikið um hvað ég væri að tala. En ég tala af þeirri þekkingu sem nokkur hundruð ferðir hafa gefið í gegnum árin sem ég hef farið þarna um.
Núna síðastliðinn vetur fauk brúin af ánni þarna fyrir ofan gljúfrin. Og eftir því sem ég hef komist næst liggur hún sem tannstönglar uppi á Suðurfjallinu. En ekki gat vindurinn tekið klambrið í Selbrekkunni og var það verr. Ég hitti einn klúbbfélaga núna fyrir stuttu og átti þá að gera út leiðangur til að athuga með gömlu brúna ásamt öðrum vettvangsrannsóknum á Fjallinu, hvað varðar nýja brú,? sagði Jón Pétur Pétursson.
Svo í framhaldi af þessum hugleiðingum sínum setti Jón Pétur þetta saman, sér til gaman og kannski einhverjum fleirum:
Gljúfrabúinn sendi seið
staðist ekkert getur
Rótaranna brúin breið
burtu fauk í vetur.
Hræðast ekki þetta þý
það má ekki líða
Þegar vaknar vor á ný
vilja aftur smíða.
Heldur fríður flokkurinn
Fjalls að kanna slóða
Selbrekkunnar stígurinn
styður hali móða.
Staulast þar um strákarnir
sterkan hafa vilja
Ekki prýða plankarnir
piltar mættu skilja.
Ekki sögð er sagan öll
strák frá Bakka minna
Ganga þeir nú vítt um völl
vilja smiði finna.
Þrjóskan þá í brjóstið beit
bjarta hafa trúna
Eftir nokkuð langa leit
loksins fundu brúna.
Mannvirkið þeir mikið sjá
mörgum lá við falli
Í tugþúsundum töldu þá
tannstöngla á Fjalli.