Frábærir stórtónleikar Rótarý
Stórtónleikar Rótarý 2012 voru haldnir föstudagskvöldið 6. janúar sl. í Salnum, tónlistarhúsi Kópavogs og var það í 16. sinn sem þessi árvissi viðburður hreyfingarinnar er haldinn. Tónlistarfólkinu sem fram kom á tónleikunum var frábærlega vel tekið og ríkti mikil hátíðarstemmning. Var það mál manna að tónleikarnir væru einir þeir bestu sem haldnir hefðu verið og ætti Jónas Ingimundarson mikið lof skilið fyrir skipulagningu þeirra nú sem fyrr.
Áður en tónlistin hófst flutti Tryggvi Pálsson umdæmisstjóri árnaðaróskir í tilefni nýja ársins og Ólafur Egilsson formaður Tónlistarsjóðs Rótarý gerði grein fyrir veitingu Tónlistarstyrkja Rótarý á Íslandi fyrir 2012. Styrkirnir voru síðan afhentir þeim Andra Birni Róbertssyni bassabarítón og Huldu Jónsdóttur fiðluleikara, 750 þús.kr. hvoru (sjá nánar frétt hér á síðunni). Heiðursskjöl innrömmuð fylgdu að venju.
Tryggvi Pálsson umdæmisstjóri ásamt styrkþegunum þeim Andra Birni Róbertssyni og Huldu Jónsdóttur.
Tónlistin hófst með því að Kristján Jóhannsson tenór, sem nýlega hefur sest að hér heima eftir stórmerkan frægðarferil erlendis m.a. í fjölda aðalhlutverka við mörg helstu óperuhús heims, söng við píanóleik Jónasar Ingimundarsonar hið kunna lag Tonerna eftir C.L. Sjöberg, lög Sigvalda Kaldalóns Heimi og Ég lít í anda liðna tíð, svo og Í fjarlægð eftir Karl Ó. Runólfsson og lag Eyþórs Stefánssonar Bikarinn. Vöktu þessir frábæru listamenn mikla hrifningu.
Eftir það tóku styrkþegarnir við og lék Hulda Jónsdóttir fyrst tvo þætti úr sólósónötu fyrir einleiksfiðlu í C dúr BWW 1005 eftir J.S. Bach, en síðan þau Jónas saman Hugleiðingu op. 42, nr. 1, eftir P.I. Tchaikovsky. Andri Björn Róbertsson söng að loknu hléi tvö lög Árna Thorsteinssonar, Enn ertu fögur sem forðum og Nótt. Þvínæst söng hann fjögur lög eftir Fr. Schubert, Am Bach im Fruhling, Der Wanderer an den Mond, Wie Ulfru Fischt, Du bist in Ruh, og loks aríuna Vi ravviso úr óperu V. Bellinis „La Sonnambula“. Ekki þótti minnsti vafi leika á að hinir ungu listamenn væru einkar vel að styrkjunum komnir og að mikils mætti vænta af þeim í framtíðinni. Nutu áheyrendur út í æsar þessa góða tækifæris til að að kynnast ríkulegum hæfileikum þeirra.
Í lokin fluttu svo þeir Kristján og Jónas ítölsk lög, Musica Proibita eftir S. Gastaldon og Ideale eftir P. Tosti, og hina miklu aríu O Paradiso úr óperunni „L'Africana“ eftir G. Meyerbeer, við mikinn fögnuð áheyrenda. – Listamönnunum var öllum ákaft þakkað með langvarandi lófaklappi og lauk tónleikunum með því Andri Björn söng með Kristjáni lag eftir gamlan kennara hans Áskel Jónsson og léku þau Jónas og Hulda bæði með á hljóðfæri sín. Var þetta hrífandi endir á eftirminnilegum tónleikum.
Kynnir á tónleikunum var Sigurður Pálsson skáld. Átti hann góðan þátt í að skapa þann ljúfa blæ sem einkenndi kvöldið, því honum fórst hlutverkið einkar vel. Las Sigurður m.a. upp þýðingar Reynis Axelssonar á erlendu ljóðunum sem sungin voru, þannig að betur mátti njóta efnisins.
Í tilefni af nýliðnum áramótum var í tónleikahléinu boðið upp á hressingu m.a. freyðvín og konfekt, svo sem tíðkast hefur, og áttu sér stað fjörugar samræður félaga í hinum ýmsu rótarýklúbbum.
Framkvæmdastjóri þessara Stórtónleika Rótarý var Erlendur Hjaltason úr klúbbi umdæmisstjóra, Rkl. Reykjavík- Austurbæ, og var undirbúningurinn í alla staði mjög til fyrirmyndar.
óe