Fréttir
  • Tónlistarsjóður

27.11.2011

Tveir veglegir tónlistarstyrkir

Rótarýhreyfingin á Íslandi mun í byrjun næsta árs veita tvo tónlistarstyrki, hvorn að fjárhæð 750 þús. kr. , efnilegu tónlistarfólki sem valið var á dögunum. Styrkþegarnir verða Hulda Jónsdóttir (fiðla) og Andri Björn Róbertsson (bass-baritón), en alls sóttu 24 um styrki þ. á m. margt mjög efnilegt ungt tónlistarfólk.

Styrkirnir eru veittir úr Tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi. Tilgangur styrkjanna er að veita ungu tónlistarfólki sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar viðurkenningu í formi fjárstyrks til frekara náms.

Elsti Rótarýklúbbur landsins, Rótarýklúbbur Reykjavíkur, beitti sér fyrir stofnun sjóðsins á umdæmisþingi í Vestmannaeyjum 4. júní 2003. Fyrst var veittur styrkur úr Tónlistarsjóðnum á aldarafmæli alþjóðahreyfingar Rótarý árið 2005 og síðan árlega 1-2 styrkir. Alls verða styrkþegarnir 11 frá upphafi, þegar þau fyrrnefndu bætast í hópinn. Margir styrkþeganna eru nú þegar orðnir kunnir tónlistarmenn sem hafa getið sér gott orð í tónlistarlífinu bæði heima og erlendis.

Efnilegir styrkþegar

TónlistarsjóðurAndri Björn Róbertsson er 22 ár gamall. Hann söng fyrst í kór fimm ára og hefur frá 9 ára aldri tekið þátt í kórastarfi Langholtskirkju. Burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík lauk hann vorið 2010 með hæstu einkunn og vann til diploma frá The Associated Board of the Royal Schools of Music. Kennari hans var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Nú stundar Andri Björn mastersnám við Royal Academy of Music í Lundúnum sem lýkur næsta vor. Honum hefur farnast vel í nokkrum alþjóðlegum söngkeppnum og staðið uppi sem sigurvegari oftar en einu sinni. Að frekara námi loknu hyggst hann helga sig klassískum söng í sem víðustum skilningi, óratoríum, óperum og ljóðum.

TónlistarsjóðurHulda Jónsdóttir er tvítug að aldri, hóf fiðlunám 4 ára gömul við Suzukideild Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hún lauk diplómaprófi frá Listaháskóla Íslands vorið 2009. Kennari hennar var Guðný Guðmundsdóttir. Það ár var upptaka af tónleikum hennar á “Björtum sumarnóttum” valin sem framlag Íslands til Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva. Hulda er nú í miðju fjögurra ára námi til B.Mus. gráðu við Julliard-listaháskólann í New York, þar sem kennari hennar er David Chan, konsertmeistari Metropolitan óperuhljómsveitarinnar. Henni hefur m.a. veist sá heiður að fá til afnota forláta fiðlu smíðaða af Vincenzo Sannino í kringum 1920. Hulda leitast við að búa sig vel undir sem fjölbreyttastan tónlistarflutning í framtíðinni, bæði kammertónlist og einleiksverkefni.
Báðir styrkþegarnir horfa m.a. til frekara náms í Þýskalandi og Austurríki. Þau hafa meðfram fastanáminu notið leiðsagnar listamanna úr fremstu röð í heiminum í tónlistargreinum þeirra. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þau bæði komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, fleiri hljómsveitum og  við margvísleg tækifæri m.a. í þekktum tónleikasölum erlendis.  Má tvímælalaust vænta mikils af þeim í framtíðinni.

Stórtónleikar Rótarý – afhending styrkjanna

Afhending styrkjanna mun fara fram hinn 6. janúar nk. á árlegum Stórtónleikum Rótarý í Salnum í Kópavogi. Munu báðir styrkþegarnir koma fram við það tækifæri.

Á tónleikunum mun Kristján Jóhannsson óperusöngvari syngja m.a. íslensk lög og aríur, en hann er nú sem kunnugt er ekki alls fyrir löngu fluttur heim eftir glæstan feril um árabil í fremstu óperuhúsum heims. – Máttarstólpi Stórtónleika Rótarý frá upphafi, hinn fágæti tónlistarmaður Jónas Ingimundarson, mun leika á píanó á tónleikunum.  Nánar verður sagt frá tónleikunum síðar.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning