Fréttir

22.9.2011

Tónlistarstyrkur Rótarý 2012

Umsóknarfrestur er til 1. október nk.

Tónlistarstyrkur Rótarý er veittur ungu fólki, sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar. Hann er ætlaður styrkþega til stuðnings við frekara nám og nemur nú 750 þúsund krónum. Frestur til að skila umsóknum er til 1. október nk.

Sólveig Thoroddsen Jónsdóttir og Margrét FriðriksdóttirUmsækjendur sendi umsókn til: Umdæmisskrifstofa Rótarý á Íslandi, Suðurlandsbraut 54, 108 Reykjavík, netfang rotary@rotary.is. Æskilegt er að umsóknum fylgi upptaka, CD eða DVD, en að öðru leyti eru umsóknir í venjulegu formi, þ.e. ferill, prófskírteini, meðmæli, áform í framhaldsnámi o.þ.h.

Margir frábærlega efnilegir ungir tónlistarmenn hafa hreppt styrkina til þessa og hefur verið ánægjulegt fyrir rótarýfélaga að fylgjast með frama þeirra. M.a. lék fyrsti styrkþeginn, Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóeinleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á opnunartónleikum Hörpu fyrr á þessu ári. Og á upphafstónleikum nýs aðalstjórnanda hljómsveitarinnar nú í september verður annar styrkþegi, Melkorka Ólafsdóttir, einleikari í japönsku flautuverki, en hún starfar í Japan um þessar mundir.

Hátíðartónleikar Rótarý 6. janúar nk.

Hinir árlegu Stórónleikar Rótarý, þar sem tilkynnt verður um styrkþega ársins, munu að venju fara fram í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, og verða föstudagskvöldið 6. janúar nk. Efnisskrá verður kynnt síðar.

Mynd: Sólveig Thoroddsen Jónsdóttir styrkþegi Rótarý 2011 með Margréti Friðriksdóttur þáverandi umdæmisstjóra.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning