Fréttir
  • Konrad-024_2

1.2.2011

Konráð Gíslason síðasti Fjölnismaðurinn 

Fánaberi íslenskrar málhreinsunar

Fæddur á Löngumýri í Skagafirði í júlí 1808       

Dáinn í Kaupmannahöfn 4. janúar 1891

Lektor frá 1848, síðar prófessor í fornnorrænu við Kaupmannahafnarháskóla 1862-1886

Konráði er eignuð ljóðlína Jónasar í kvæðinu Ísland:

Landið var fagurt og frítt

og fannhvítir jöklanna tindar

Eftir honum er höfð þessi einstaka staðhæfing: Maður á aldrei að fyrirgefa neinum neitt

Mynd 1: Hjalti Pálsson flytur ávarp við afhjúpun varðans. Rótarýklúbbur Sauðárkróks reisti varðann 4. janúar 2011.  

Konráðsnefndarmenn afhjúpa varðann. Aðrir rótarýfélagar bregða blysum á loft.Konráð Gíslasyni reistur minnisvarði í Skagafirði

Síðasti Fjölnismaðurinn og merkisberi íslenskrar málhreinsunar

Þann 4. janúar s.l. var Konráði Gíslasyni prófessor við Kaupmannahafnarháskóla reistur minnisvarði á áningarstað Vegagerðar ríkisins neðan við Varmahlíð í Skagafirði í fyrrum landi Löngumýrar þar sem Konráð fæddist sumarið 1808. Það var Rótarýklúbbur Sauðárkróks sem stóð að gerð minnisvarðans og með hátíðlegum hætti afhjúpaði hann á dánardægri Konráðs sem lést í Kaupmannahöfn þann dag árið 1891, eða fyrir 120 árum.

Mynd 2: Konráðsnefndarmenn afhjúpa varðann. Aðrir rótarýfélagar bregða blysum á loft.

Athöfnin hófst á Löngumýri þar sem Rótarýfélagar og gestir höfðu safnast saman og gengu blysför að staðnum. Veður var gott, lítilsháttar norðanátt en dimmt í lofti því að klukkan var orðin um hálfsjö þegar minnisvarðinn var afhjúpaður. Hann er stuðlabergssúla, fengin frá Hofsósi, með áfastri koparlágmynd af Konráði, mótaða af listamanninum Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni á Sauðárkróki. Jón Daníel Jónsson forseti klúbbsins mælti nokkur orð en síðan gengu til félagar Konráðsnefndarinnar og afhjúpuðu listaverkið. Hjalti Pálsson formaður nefndarinnar flutti stutta tölu og að síðustu var skotið flugeldum. Að athöfn lokinni var haldinn klúbbfundur á Löngumýri þar sem fjórir klúbbfélagar fluttu erindi um Konráð, ásamt að snæða góðan mat.

Hugmyndin að þessu kviknaði þegar Rótarýklúbbur Sauðárkróks fór í skemmtiferð til Kaupmannahafnar haustið 2004. Félagar voru á pöbbarölti og sátu á gömlum samkomustað Íslendinga, Hviids Vinstue, þegar sú umræða kom upp að reisa Konráði minnisvarða þar sem hann var sá eini af Fjölnismönnum er ekki hafði hlotið þá sæmd. Hugmyndin gleymdist ekki og nokkrum árum síðar kaus klúbburinn Konráðsnefnd þriggja klúbbfélaga til að undirbúa verkefnið og hrinda í framkvæmd, þá Ágúst Guðmundsson, Árna Ragnarsson og Hjalta Pálsson. Á síðasta ári starfaði nefndin markvisst að málinu. Arkitektinn Árni hannaði varðann og teiknaði og komst nefndin að góðu samkomulagi við Vegagerð ríkisins um að reisa varðann við áningarstað Vegagerðarinnar neðan Varmahlíðar en þar var Rótarýfélagi Gunnar Helgi Guðmundsson umdæmisstjóri á Sauðárkróki henni innan handar um undirbúning. Klúbbfélaginn Knútur Aadnegard verktaki sá um að steypa undirstöður súlunnar og koma henni á sinn stað en frágangur umhverfis mun bíða næsta vors. Menningarsjóður KS, Fiskiðjan Skagfirðingur. Sparisjóður Skagafjarðar, Loðfeldur ehf á Gránumóum, Rafsjá á Sauðárkróki og K-takverktakar styrktu verkefnið og vill Rótarýklúbburinn koma á framfæri sérstökum þökkum til þessara aðila en þrú síðasttöldu fyrirtækin eru einmitt í eigu klúbbfélaga í Rótarýklúbbi Sauðárkróks.

 

Konrad-049_3Mynd: Konráðsnefndarmenn Rótarýklúbbs Sauðárkróks ásamt listamanninum. Frá vinstri talið: Árni Ragnarsson, Hjalti Pálsson, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson listamaður sem gerði lágmyndina, Ágúst Guðmundsson.

En hver var Konráð Gíslason?

Hjalti Pálsson rakti sögu Konráðs í stórum dráttum við athöfnina. Hann var sonur Gísla Konráðssonar bónda og þekktasta sagnaritara á Íslandi á 19. öld, og fyrri konu hans Efemíu Benediktsdóttur. Konráð sleit barnsskónum á Löngumýri og síðar á bænum Ytra-Skörðugili frá 8 til 18 ára aldurs. Þá var hann smali hjá föður sínum og gætti kvíaánna. Hann reyndist afbragðs námsmaður og Jón Konráðsson prófastur á Mælifelli kenndi honum dálítið í dönsku, reikningi og latínu. Konráð var 18 ára gamall er faðir hans sendi hann suður á Nes til sjóróðra þar sem hann komst m.a. í kynni við Hallgrím Scheving kennara á Bessastöðum og um haustið var hann tekinn í Bessastaðaskóla.

Vorið 1831 brautskráðist Konráð frá Bessastaðaskóla, sigldi sama haust til Kaupmannahafnar og innritaðist í háskólann. Hann kom aldrei síðan til Íslands en var þó nánast fanatískur Íslendingur í Danmörku, a.m.k. fyrri hluta ævinnar, en þess gætti minna eftir að hann varð embættismaður við háskólann.

Árið 1835 hóf Konráð útgáfu tímaritsins Fjölnis með félögum sínum, Brynjólfi Péturssyni frá Víðivöllum í Skagafirði, Jónasi Hallgrímssyni skáldi og Tómasi Sæmundssyni. Það markaði tímamót í bókmenntasögu Íslendinga og hafði ótvíræð áhrif til hreinsunar íslenskrar tungu þar sem Konráð var vissulega merkisberinn.

Árið 1839 varð Konráð styrkþegi Árnasafns í Kaupmannahöfn og fór í framhaldi af því að vinna markvisst að málfræðirannsóknum sínum og orðabókargerð. Árið 1846 kom út fyrsta málfræðirit hans, Um frumparta íslenskrar tungu, ótvírætt brautryðjendaverk í íslenskum málvísindum. Sama ár fékk hann kennarastöðu við lærða skólann á Íslandi en missti heitmey sína um sumarið og varð afhuga því að fara til Íslands. Árið 1848 fékk hann lektorsstöðu í fornnorrænu við háskólann í Kaupmannahöfn og var veitt prófessorsnafnbót árið 1853 en hlaut formlega prófessorsstöðuna 1862 og gegndi henni til 1886, að hann fékk lausn frá störfum.

Konráð kvæntist danskri ekkju 1855. Hún lést 1877, hafði verið mikil fríðleikskona. Konráð unni henni mikið og var sambúð þeirra mjög ástúðleg svo að Konráð tók ekki á heilum sér lengi eftir að hún lést. Hún átti drenginn Georg sem var andlega vanþroska og var umtalað hve Konráð hefði verið honum góður.

Konráð hefur verið nefndur merkisberi íslenskrar málhreinsunar á 19. öld og það áreiðanlega með miklum sanni. Enginn maður hafði á hans tíð og lengi síðan jafndjúpa og yfirgripsmikla þekkingu á íslensku fornmáli og forníslenskum kveðskap sem Konráð. Auk málfræðirannsókna vann hann árum saman að orðabókargerð. Á þeim tíma var íslensk réttritun enn í lausum reipum og Konráð vildi móta henni farveg en reglur hans þóttu mörgum sérviskulegar og náðu ekki fram að ganga. Hann hafði í huga að búa til íslenska stafsetningarorðabók og segir m.a. um hana í bréfi árið 1845: Nú sýnist mér flestir skrifa hér um bil eins og skynlausar skepnur mundu gera, ef þær kynnu að draga til stafs. Rit þetta kom hins vegar aldrei út.

Það er vonum seinna að Konráði Gíslasyni skuli reistur minnisvarði, 120 árum eftir lát hans en það er líka til marks um að hann er enn ekki öllum gleymdur þótt liðin séu rúm 200 ár frá fæðingu hans.

Konráð Gíslason yfirgaf Ísland 23 ára gamall, árið 1831, og átti ekki afturkvæmt í lifanda lífi. En nú - 180 árum síðar - er hann aftur í Skagafirði. Samantekt sem Hjalti flutti á Rotaryfundinum eftir athöfnina lauk hann með tilvitnun í Indriða Einarsson, systurson Konráðs sem gefur þessa götumynd af honum í Kaupmannahöfn: ,,Hann gekk hart, baðaði báðum handleggjum, leit hvorki til hægri né vinstri. Hann var niðurlútur og hallaðist fram þegar hann gekk. Mér kom til hugar að þarna væri hann enn að smala kindum á Langholtinu fyrir ofan Ytra-Skörðugil í Skagafirði.“


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning