Fréttir
  • 17.juni-i-Winnipeg

11.1.2011

Rótarýferð á Íslendingaslóðir vestra

Rótarýklúbbur  Reykjavíkur  er að skipuleggja   ferð á  Íslendingaslóðir í Bandaríkjunum og Kanada.   Ráðgert er að  fljúga frá  Keflavík til Minneapolis  þriðjudaginn  14. júní og koma heim að morgni föstudagsins 24. júní.

Undir leiðsögn kunnugs fararstjórar  verða heimsóttir nokkrir helstu sögustaðir  á Íslendingaslóðum vestra  og  tekið þátt í hátíðahöldum við  styttu Jóns Sigurðssonar við þinghús Manitoba í  tilefni þess að 200 ár  eru þá liðin frá fæðingu hans. Á vegum íslensku afmælisnefndarinnar verður  flutt leikin dagskrá  eftir  félaga okkar Svein Einarsson undir heitinu:  Ævistarf og ímynd Jóns Sigurðssonar. Dagskráin er samin í tilefni afmælisársins.

Gert er ráð fyrir að kostnaður fari ekki yfir 210 þúsund kr. á mann m.v. gistingu i tveggja manna herbergi. Þetta  gæti þó breyst eitthvað m.t.t. breytinga á flugfargjöldum. Innifalið er flug, allur akstur, öll gisting, morgunverður alla daga, hádegisverður  suma  daga  og fararstjórn. Ferðaskrifstofa Jónasar Þórs sagnfræðings, Vesturheimur, skipuleggur ferðina. Jónas Þór gjörþekkir þessar slóðir, en  hann  bjó lengi í Winnipeg.  Auk Winnipeg verður  m.a.  farið  til Mountain, Gimli og Árborgar.

Ferð á þessar slóðir lætur engan ósnortinn og hér er kjörið tækifæri til að leita uppi ættingja í Vesturheimi.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur greiði staðfestingargjald kr. 40 þúsund á mann fyrir 31. janúar.

Þátttöku má tilkynna til Eiðs Guðnasonar, Rótarýklúbbi Reykjavíkur, s. 897 6811 eða esg1@simnet.is  Eiður  veitir nánari upplýsingar.

17.juni-i-Winnipeg
Nánar um ferðatilhögun :

Ferðalýsing

 

Dagur 1: þriðjudagur 14. júní:  Flug frá Keflavík 16:35 til Minneapolis. Þar lent um 18:00 að staðartíma. Ekið frá flugvelli til Alexandria í Minnesota (um tveggja stunda akstur) – Boðið upp á hressingu í vagninum á leiðinni. Gist á Days Inn eina nótt.

Dagur 2: miðvikudagur 15. júní: Að loknum morgunverði (09:00) er skoðað norrænt byggðarsafn í Alexandria. Þar er m.a. að finna afar umdeildan stein, The Kensington Runestone, sem lengi var talinn sönnun þess að norrænir menn hafi verið á þessum slóðum á 14.öld.  -  Frá Alexandria er ekið til Fargo og þar snæddur hádegisverður. (innifalinn í verði)

Að honum loknum er stefnan tekin í norður og ekið til Grand Forks í Norður Dakota og staldrað við í Columbia Mall. Þar eru margar verslanir og úrval matsölustaða. Rétt að hver velji sér mat við hæfi og snæði áður en haldið er til Grafton (um 18:30) og bókað inn á AmericInn. Gist eina nótt.

Dagur 3: fimmtudagur 16.júní: Að loknum morgunverði (09:00) er ekið til Mountain, sem er lítið þorp í miðri nýlendu Íslendinga, sem séra Páll Þorláksson stofnaði árið 1878. Öflugt félag íslendinga er þarna undir forystu Curtis Olafson öldungadeildarþingmanns. Farið verður í skoðunarferð um íslensku nýlenduna í Mountain  væntanlega  með leiðsögn  heimamanna.  M.a. er komið á landnámsjörð Stephans G. Stephanson og að minnisvarða Káins og Garðarkirkju og snæddur hádegisverður. Síðan komið við í Icelandic State Park á leið norður að landamærunum. Þetta er merkilegt byggðarsafn sem stendur á íslenskri landnámsjörð.

Þaðan er aðeins um 2 klst akstur á náttstað í Winnipeg. Gist næstu þrjár nætur á Delta Winnipeg.

Dagur 4: föstudagur 17. júní:  Frjáls dagur í Winnipeg.  Um morguninn má rölta um nánasta umhverfi hótels í miðbænum.

Eftir hádegið er tilvalið er að heimsækja The Forks svæðið, ármót Assiniboine og Rauðár. Hér stunduðu frumbyggjar viðskipti öldum saman og hér myndaðist fyrsti byggðakjarni hvítra á kanadísku sléttunni. Á svæðinu eru söfn, markaðir, ótal smáverslanir, fjöldi veitingastaða og  litskrúðugt mannlíf.

Seinni partinn gefst tækifæri til að vera við hátíðahöld við  styttu Jóns Sigurðssonar við þinghús Manitoba í  tilefni þess að 200 ár  eru þá liðin frá fæðingu hans. Á vegum íslensku afmælisnefndarinnar verður  flutt leikin dagskrá  eftir  félaga okkar Svein Einarsson undir heitinu:  Ævistarf og ímynd Jóns Sigurðssonar. Dagskráin er samin í tilefni afmælisársins. Þá verður konsert í Winnipeg Art Galleryþar sem m.a. Kór Bústaðarkirkju kemur fram og einsöngvarinn Jóhann Valgeir

Kannaðir verða möguleikar á að  sækja Rótarýfund eða hitta Rótarý félaga meðan á dvölinni í Winnipeg stendur.

Dagur 5: laugardagur 18. júní:  Frjáls dagur í borginni. Tilvalið að kíkja á safn, Manitoba Museum er í göngufæri. Þar er sögu dýra- og mannlífs á sléttunni gerð einstaklega góð skil.

Þá er verslanir um alla borg opnar á laugardögum svo og kaffi- og veitingahús.  Þá er tækifæri til að heimsækja ættingja og vini .

Dagur 5: sunnudagur 19. júní:  Morguninn frjáls. Um hádegi verður borgin kvödd, leiðin liggur til Nýja Íslands.  Íslenska landnámið hófst með landtöku á Willow Point (Víðirnes) 21.október, 1875. Staðurinn skoðaður og síðan fylgt í fótspor landnemanna og gengið eftir strandlengjunni til Gimli. Farið á byggðarsafnið (New Iceland Heritage Museum) og hlýtt á frásögn um sögu íslenska landnámsins.Bókað á hótel Lakeview Resort og þar gist næstu tvær nætur.

Dagur 6: mánudagur 20. júní:  Skoðunarferð um Nýja Ísland. Brottför af hóteli að loknum morgunverði kl.09:00. Ekið til Árborgar við Íslendingafljót. Farið í heimsókn til heiðurshjónanna Rosalind og Einars Vigfusson. Hanne r landsþekktur tréútskurðarmaður en hún stjórnar barnakór. Þaðan verður farið á byggðarsafnið í Árborg og snæddur hádegisverður (innifalinn í verði)

Frá Árborg verður ekið til Mikleyjar (Hecla Provincial Park) með viðkomu á landnámsjörð Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar, Arnheiðarstöðum og Riverton.

Í Mikley er að finna áhugavert byggðarsafn sem heimamenn sýna gestum. Hér var útgerð mikil og í einni byggingu eru fiskveiðum á vatninu gerð góð skil. Að lokinn hressingu á veitingastað við höfnina verður eyjan kvödd og nú ekin strandlengjan suður til Gimli. Hér má glöggt sjá hversu lélegt landið er fyrir hvers kyns landbúnað, blautt og sendið. Komið við í Árnesi, fæðingarstað Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar og minnisvarði um hann skoðaður.

Komið til Gimli undir kvöld. – Hátíðarkvöldverður í Johnson Hall í Waterfront Center.

Dagur 7: þriðjudagur 21. júní: Hvíld á Gimli fram yfir hádegi. – Brottför 14:00 og ekið rakleitt suður að landamærunum, yfir þau á náttstað í Grand Forks, í Norður Dakota.

Gist á Lake View Resort, nærri Columbia Mall.

Dagur 8: miðvikudagur 22. júní: Ekið suður til Minneapolis. Hádegisverður (innifalinn í verðir) í Alexandra. Komið á náttstað, Country Inn & Suites seinni part. Íslendingafélagið í borginni verður með móttöku á hótelinu undir kvöld.

Dagur 9: fimmtudagur 23. júní: Heimferðardagur. Tækifæri gefst til að skoða sig um í borginni. Öllum farangri verður komið fyrir í læstu sal á hóteli en brottför þaðan er 16:00.

Flug til Keflavíkur 19:20 og þangað komið að morgni föstudags.

 

Athugið:   Hámarksfjöldi  er  50 manns. Gert er ráð fyrir að kostnaður fari  ekki yfir  210 þúsund  kr. á mann m.v. gistingu i tveggja manna herbergi.  Innifalið er flug, allur akstur, öll gisting, morgunverður alla  daga , hádegisverður  suma  daga  og fararstjórn.

Svipuð dagskrá og í velheppnaðri  ferð Oddfellowa á þessar slóðir í  sept. 2010. Þetta  er ferðaáætlun í grófum dráttum. Gæti  tekið einhverjum breytingum.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur  greiði    staðfestingargjald kr. 40 þúsund á  mann fyrir  15. janúar.

Þetta  er sent  félögum til að kanna hve margir  kunni að hafa  áhuga á ferð á slóðir Vestur Íslendinga.   Sé áhugi fyrir  hendi , hafið þá samband  við Eið Guðnason   s  897 6811   eða  esg1@simnet.is  Eiður  veitir nánari upplýsingar.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning