Fréttir
  • Sigríðru Ósk Kjartansdóttir

6.12.2010

Stórtónleikar Rótarý 2011

föstudaginn 7. janúar kl. 20 í Salnum, Kópavogi

Félagar Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi munu, ásamt gestum sínum, fagna nýju ári á hátíðartónleikum – Stórtónleikum Rótarý – sem haldnir verða föstudagskvöldið 7. janúar n.k. kl. 20.00 í Salnum, Kópavogi, að venju.

Listamennirnir sem koma fram á tónleikunum nú eru frábær ung söngkona, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzo sópran, og okkar dáðu tónlistarmenn Peter Maté, píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari og Gunnar Kvaran, sellóleikari.

Það er nú sem fyrr Jónas Ingimundarson sem sett hefur saman efni tónleikanna í samráði við stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý. Klúbbur umdæmisstjóra, Rótarýklúbburinn Borgir, Kópavogi, annast undirbúning tónleikanna og framkvæmd þeirra.

Stjórn Tónlistarsjóðsins hefur að undanförnu unnið að því verkefni sínu að velja árlegan styrkþega Rótarý á tónlistarsviðinu, en 21 umsókn barst að þessu sinni og verður tilkynnt um niðurstöðu á tónleikunum. Margrét Friðriksdóttir, umdæmisstjóri Rótarý, mun þá afhenda styrkinn og tónleikagestir í kjölfarið fá að njóta listar styrkþegans.

Listamennirnir sem koma fram á tónleikunum nú eru frábær ung söngkona, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzo sópran, og okkar dáðu tónlistarmenn Jónas Ingimundarson, píanóleikari, Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari og Gunnar Kvaran, sellóleikari.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzo sópran, nam óperusöng við Benjamin Britten óperudeildina í Royal College of Music í London. Hún útskrifaðist vorið 2008 og lauk ári síðar meistaragráðu frá sama skóla, eftir að hafa notið margvíslegra viðurkenninga í söngnámi sínu.Sigríður Ósk hefur komið fram sem einsöngvari í virtum tónleikasölum m.a. Royal Albert Hall, Kings Place, St. Martin-in-the-Fields og Íslensku óperunni, og einnig sungið í beinni útsetningu BBC 3 á Englandi. Nýverið söng hún hlutverk Tisbe í Öskubusku fyrir Iford Arts, en hún hefur síðustu árin sungið mörg hlutverk í óperum og óratoríum við góðan orðstír. Sigríður söng inn á diskinn Engel Lund Book of Folk Songs, gefinn út af Nimbus Records. -- Þau Sigríður Ósk og Jónas Ingimundarson munu flytja frægar óperuaríur og þekkt sönglög eftir Mozart, Grieg, Gluck og Bizet.

Óþarft er að kynna Guðnýju Guðmundsdóttur, fyrrverandi konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands og fiðlukennara, og Gunnar Kvaran, prófessor við Listaháskóla Íslands og sellóleikara. Guðný mun ásamt Jónasi Ingimundarsyni leika vinsæl verk eftir Beethoven, Kreisler og Saint-Saens. Gunnar mun spila 7 tilbrigði Beethovens um stef úr “Töfraflautu” Mozarts.

Miðasala

Miðasala að stórtónleikunum er hafin. Rótarýfélagar og þeirra gestir hafa forgang að miðunum. Til að kaupa miða á miði.is þarf að fara á sérstaka slóð á midi.is til að panta miða. Miðaverði er stillt í hóf eða kr. 3900 eins og í fyrra. Boðið verður upp á léttar veitingar (freyðivín og konfekt) í hléi.

Smelltu hér til að kaupa miða á netinu. Ath. Ekki er hægt að fara á þessa slóð af midi.is. Einnig er hægt að kaupa miða í afgreiðslu Salarins.

Þar sem um hátíðartónleika er að ræða eru Rótarýfélagar og gestir þeirra hvattir til að mæta prúðbúnir til þessarar frábæru skemmtunar sem tengd er þeim ánægjulega menningarþætti í starfsemi Rótarý á Íslandi að styrkja efnilegt ungt tónlistarfólk til framhaldsnáms.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning