Fréttir

21.10.2010

Að loknu Umdæmisþingi

Treystum samfélagið - Tengjum heimsálfur er þýðing umdæmisstjóra, Margrétar Friðriksdóttur á einkunnarorðum alheimsforseta Rótarý, Ray Klinginsmith: Building communities, bridging continents. Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að treysta samfélagið og eigi mannkynið að finna leið út úr þeim ógöngum sem því hefur tekist að koma sér í víða, er nauðsynlegt að tengja heimsálfur – finna leið til að sameina þá sem á jarðarkringlunni búa.

Ein er sú auðlind sem á næstu árum og áratugum á eftir að aukast að verðgildi. Það er vatnið en þema þingsins nú var eimmitt vatn í öllum myndum og athygli ráðstefnugesta vakin á bæði skorti og ofgnótt vatns um víða veröld. Þörf umræða og vel við hæfi í landi sem býr við þann lúxus að eiga margfalt magn þess vatns sem flestir eiga eða hafa aðgang að.  Okkur ber að virða það og gæta þess að spilla ekki þessari auðlind.

Á umdæmisþingi er hátíðakvöldið hápunkturinn og svo var einnig nú. Borgarfélagar höfðu undirbúið glæsilega dagskrá þar sem Garðar Cortes var í aðalhlutverki – og lék það vel. Síðasta atriðið var ekki af verri endanum – sjálfur óperukórinn mætti á staðinn og söng sig inn í hjarta gestanna. Garðari dugði ekki að stjórna kórnum, hann vildi fá gesti til að syngja líka – taka þátt. Það tókst honum svo sannarlega og svo vel að þegar hann lét kórinn og gesti syngja síðasta lagið – Maístjörnuna – fór einhver undarleg tilfinning um salinn. Þessi tilfinning var von – vonin sem Maístjarnan hefur kveikt í brjóstum Íslendinga um árabil. Hún gerði það aftur núna – kveikti von um að íslensk þjóð yrði aftur heil.

Svona er máttur söngsins – kærar þakkir fyrir mig og Garðar, takk kærlega fyrir að vekja þessa vonarglætu!

Vigdís Stefánsdóttir rótarýklúbbi Grafarvogs.



Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning