Fréttir

21.8.2010

Árbæjarsafn - miklu meira en safn

Árbæjarsafn er ein af perlum Reykjavíkur, staður sem er vel þess virði að heimsækja nokkrum sinnum á ári.

Nokkur skref skilja milli nútíðar og fortíðar þegar Árbæjarsafn er heimsótt. Um leið og hurðin lokast á eftir gestinum og hann stígur inn á “torgið”, gleymist umferðarhávaðinn, stressið, bankakreppan og allt annað sem nútímalífi fylgir. Fallega uppgerð gamaldags hús sitja hringinn í kring um torgið og það glittir í torfbæ í fjarska. Malargata liggur niður brekkuna. Í hverju húsi er eitthvað að sjá og læra, upplifa líf forfeðranna. Meira að segja sumra sem enn eru á lífi – því sagan nær ekki langt aftur.

Neðarlega, eiginlega neðst í litla þorpinu, er Kornhlaðan. Stórt og virðulegt hús á tveim hæðum.  Í Kornhlöðunni eru gjarnan sérsýningar og nú er þar að finna sýningu á hernámsárunum. Sýningarnar eru oftast á neðri hæð því sú efri er afar hentug til veisluhalda.

Þetta vita félagar í Rótarýklúbbi Árbæjar en þeir halda fundi í Kornhlöðunni 3-4 sinnum á hverju ári. Fimmtudaginn 12. ágúst buðu félagar Árbæjarklúbbsins dótturklúbbnum úr Grafarvoginum með sér á fund í Kornhlöðunni. Húsið gamla tók vel á móti gestunum sem fylltu loftið eftir að hafa skoðað umhverfi og neðri hæð sér til ánægju.

Eftir að hafa notið góðra veitinga, kynningar á BUGLI og félagsskapar hvers annars, gengu nokkir rótarýfélagar um svæðið og dáðust að því hversu vel hefur verið staðið að uppbyggingu safnsins.

Mig langar til að hvetja alla til að heimsækja safnið, prófa að lifa fortíðina með börnum og barnabörnum – eða bara sjálfum sér.

Vigdís Stefánsdóttir erfðaráðgjafi og félagi í Rótarýklúbbi Grafarvogs


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning