Lisa Lützen skiptinemi segir skrýtið að sjá svona langt en saknar trjáa og blóma
Árlega dvelja hérlendis erlendir skiptinemar, mestur fjöldinn á vegum AFS en einnig á vegum annara samtaka, s.s. Rótarýhreyfingarinnar en á hennar vegum eru tveir skiptinemar, Rafael Azevedo Borges frá Brasilíu sem dvelur hjá fjölskyldu í Háagerði í Reykjavík og Lisa Lützen frá Flensburg í Þýskalandi sem dvelur hjá fjölskyldu Karls Skírnissonar í Víðihvammi í Kópavogi.
,,Það hefur verið ákaflega lærdómsríkt að dvelja á Íslandi en ég hafi úr fjórum löndum að velja, en ákvað að koma hingað þótt ég hefði aldrei séð landið. Hér er fallegt og víða svo hreint og skrýtið að sjá svona langt en ég sakna svolítið tré og blóma,” segir Lisa Lutzen. Hún hóf nám í haust í Menntaskólanum í Kópavogi en sagðist fyrstu vikurnar ekki hafa skilið neitt en svo fór það skyndliega að koma enda var fjölskyldan hennar dugleg að tala bara íslensku við hana og kennararnir mjög hjálplegir.
,,Sundlaugarnar hér eru alveg æðislegar, ég fer oft í sund. Ég hef heimsótt Hornafjörð og séð þessa stórkostlegu jökla og Jökulsárlón, og svo hef ég komið á Flúðir og til Akureyrar. Ég fer aftur heim 23. júní og ég mun örugglega sakna minna íslensku vina og fjölskyldunnar minnar í Kópavogi,” segir skiptineminn Lisa Lützen.