Eggert Steinsen, heiðursfélagi Rótarýklúbbs Kópavogs látinn
Kveðja frá Rótarýklúbbi Kópavogs
Eggert Steinsen, heiðursfélagi í Rótarýklúbbi Kópavogs, er látinn. Eggert var þó ekki aðeins einn af félögum klúbbsins, heldur hefur hann verið einn af burðarásum klúbbsins í nær hálfa öld. Hann varð, ungur að árum, einn af stofnendum klúbbsins árið 1961. Eggert var fagurt dæmi um hinn góða Rótarýfélaga sem vann alla tíð af samviskusemi og alúð að málefnum Rótarý. Þau voru til dæmis ófá árin sem Eggert var með fulla mætingu á Rótarýfundi og ef hann gat starfa sinna vegna ekki sótt fund í eigin klúbbi bætti hann það upp með mætingu í öðrum klúbbum. Eins og gefur að skilja sýndu Rótarýfélagarnir slíkum manni mikinn trúnað og völdu Eggert á áranna rás til flestra þeirra trúnaðarstarfa sem til eru innan Rótarý. Til að sýna þakklæti sitt kusu klúbbfélagar Eggert heiðursfélaga Rótarýklúbbs Kópavogs. Síðast nutu Rótarýfélagarnir nærveru Eggerts á jólafundi klúbbsins. Koma hans á fundinn var klúbbfélögum fagnaðarefni því vitað var að hann ætti við sjúkdóm að stríða. Að leiðarlokum minnist Rótarýklubbur Kópavogs mikils og góðs Rótarýmanns sem lagði í nær hálfa öld drjúgt til starfsins og var fyrirmynd annarra í störfum sýnum fyrir Rótarý. Rótarýklúbbur Kópavogs sendir fjölskyldu Eggert hugheilar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.
Stjórn Rótarýklúbbs Kópavogs