Fréttir
  • Herdís Anna Jónasdóttir

18.1.2010

Herdís Anna Jónasdóttir sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari hlutu tónlistarstyrki Rótarý 2010

 

Fullt hús á stórkostlegum tónleikum í Salnum 8. janúar sl. og mikil hrifning áhorfenda

Tónlistarstyrkir Rótarý á Íslandi 2010 voru afhentir á árlegum Stórtónleikum Rótarý  sem haldnir voru í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, að kvöldi 8. janúar sl. Styrkina hlutu þau Herdís Anna Jónasdóttir sópran og Jóhann Már Nardeau trompetleikari. Á tónleikunum komu fram Víkingur Heiðar Ólafsson og annar ungur píanósnillingur, Ran Dank, frá Ísrael. Þeir eru báðir útskrifaðir úr hinum heimskunna Julliard-tónlistarháskóla í New York. Víkingur Heiðar varð fyrstur til að hreppa tónlistarverðlaun Rótarý árið 2005.  Tónleikaskrá þeirra félaga var fjölbreytt, þeir léku með miklum tilþrifum ýmist á einn flygil eða tvo.

Herdís Anna Jónasdóttir

Við afhendingu verðlaunanna, f.v.: Herdís Anna Jónasdóttir, Guðrún Birgisdóttir móðir Jóhanns Más Nardeau sem tók við verðlaununum fyrir hans hönd, Sveinn H. Skúlason umdæmisstjóri Rótarý og Ólafur Egilsson formaður Tónlistarsjóðs Róatrý.

Herdís Anna söng nokkur lög með Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur við píanóið en Jóhann Már Nardeau var erlendis en vonir standa til að hann haldi síðar tónleika hérlendis sem Rótarýfélagar sem og aðrir gætu sótt. Fullt hús var á tónleikunum og ríkti mikil hrifning yfir frábærri frammistöðu hinna ungu listamanna.

Þetta er sjötta árið sem Rótarýhreyfingin á Íslandi veitir efnilegu ungu tónlistarfólki styrki til frekara náms.  Nema styrkirnir 500 þúsind krónum hver en styrkþegar eru nú orðnir alls 8 talsins frá upphafi.  Umsóknir að þessu sinni voru 20, fjölbreytni óvenju mikil að því er tónlistargreinar og aldur snertir og í hópnum mikið hæfileikafólk. Það var umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, Sveinn H. Skúlason, sem afhenti styrkina en þeir hafa verið veittir árlega síðan á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar 2005.

Herdís Anna JónasdóttirHerdís Anna Jónasdóttir sópran er langt komin í söngnámi óperudeild Hochschule für Musik Hanns-Eisler í Berlín.  Hún hóf nám sitt einungis 5 ára gömul í Tónlistarskólanum á Ísafirði, heimabæ sínum.  Eftir stúdentspróf með láði frá Menntaskólanum á Ísafirði 2003 hélt hún áfram söngnámi í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur og lauk þaðan prófi 2006. Hafði hún þá jafnframt um tíma verið Erasmus skiptinemi við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg. 

Einn af kennurum Herdísar Önnu í Berlín undanfarin 3 ár, prófessor Brenda Mitchell, hefur borið sérstakt lof á ,,einstaklega hlýja litríka rödd hennar sem gerir hana að útvöldum túlkanda ljóðrænna hlutverka á borð við Sophie í Rósariddaranum og Paminu í Töfraflautunni.”  Hún hafi náð tökum á coloratura-tækninni og frábærir leiklistarhæfileikar geri henni mögulegt aö fara með hin ólíkustu hlutverk. Þá hafi Herdís Anna fágæta hæfileika til að læra og túlka nútímatónlist. Með söng sínum á námsárunum m.a. í Berlin Komische Oper, Berlin Konzerthaus og einnig Neuköllner Oper, einu af stóru sviðunum í Berlín, þar sem Herdís Anna hafi sungið heillandi Mélisande í vinsælli uppsetningu á óperu Debussy's “Pelléas et Mélisande.”

Jóhann Már Francis Nardeau trompetleikari ákvað líka snemma að helga tónlistinni ævi sína.  Hann ólst upp í Kópavogi og lærði m.a. í Tónlistarskólanum þar.  Stúdentspróf tók hann frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 2007 og frekara nám í trompetleik stundaði Jóhann við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 2003, útskrifaðist þaðan með einleikarapróf vorið 2006 og hlaut ágætiseinkunn. Aðalkennari hans, Eiríkur Örn Pálsson, kemst svo að orði um Jóhann, að hann hafi tekið meiri framförum í náminu hjá sér en nokkur annar nemandi.  Þá fékk Jóhann eftirfarandi vitnisburð á brottfararprófi:

,,Jóhann hefur mjúkan og fallegan tón, og trompetleikur hans einkennist af miklu tæknilegu öryggi og músíkaliteti. Framúrskarandi og einstaklega blæbrigðaríkur flutningur.  Stórglæsilegur flutningur hans á ,,Fantasíu um stef úr óperunni Norma” mun seint líða úr minni...”  Jóhann hélt útskriftartónleika í Salnum og m.a. frumflutti þá nýtt verk eftir Snorra Sigfús Birgisson. Jóhann hefur verið búsettur í París frá hausti 2006 við framhaldsnám og ýmis verkefni. Eftir aðeins eins árs framhaldsnám í París hlotnaðist honum í júní 2007 gullmedalía, ,,La Medaille d'Or”, frá Conservatoire Nationale de Région de Rueil-Malmaison og var einn með hæstu mögulega einkunn samkvæmt einróma áliti dómnefndar. Í febrúar 2008 var hann í hópi 28 sem þreyttu inntökupróf í Parísarkonservatoríið (CNSMDP) og sá eini sem komst inn. Kennari hans þar er Clément Garrec 1. trompetleikari Parísaróperunnar. Jóhann hefur unnið til fyrstu verðlauna í trompetkeppnum, var ekki nema 16 ára þegar hann hreppti 2. verðlaun í Evrópukeppni ungra trompetleikara í Alencon í Frakklandi 2004. Í september sl. komst hann í 7 manna úrslitahóp af 48 þátttakendum í 43. alþjóðlegu trompetkeppninni í Búdapest. Þá hefur Jóhann leikið með eða í mörgum þekktum hljómsveitum m.a. Orkester Norden, Lamoureux-hljómsveitinni og Promeþeus-hljómsveitinni. Á Íslandi hefur Jóhann komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og fleiri hljómsveitum og flutt einleikskonserta eftir Hummel, Hertel, Copland og Arutiunian.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning