Fréttir

30.12.2009

Jólahugvekja sr. Guðna Más Harðarsonar á jólafundi Rótarýklúbbs Kópavogs

Starf Rótarý er mikið og gott og það byggir á hinum kristna anda og sem hátíð ljóss og friðar færir okkur.

Það getur verið erfitt að tala útfrá jólaguðspjallinu, texta sem við heyrum öll a.m.k einu sinni og upp í fimm sinnum á hverjum jólum, sumir hér inni hafa því kannski heyrt hann lesin yfir 300 sinnum og það getur verið snúið að miðla honum áfram svo eftir sé tekið, það verður svolítið eins og að skvetta vatni á gæs! Mig langar í dag að deila með ykkur jólasögu sem ég heyrði einu sinni og hafði mikil áhrif á mig sem ungan mann.

Þannig var að í litlum bæ í Bandaríkjunum stóð til að setja upp helgileik jólanna í grunnskóla bæjarins. Öllu var tjaldað til eins og Bandaríkjamanna er von og vísa og mikil leikmynd sett upp í leikhúsi bæjarins með gistihúsum, fjárhúsi og öllu tilheyrandi. Efnilegustu nemendunum sem þóttu sýna mestu leikrænu tilþrifin var raðað í veigamestu hlutverkin og svo koll af kolli. Villi ,drengur sem var nokkuð eftir á og þekktur fyrir að vera stríðinn og , fékk það hlutverk að leika fyrsta gistihúsaeigandann sem Jósef og María leituðu til. Hann átti að svara spurningunni um hvort laust væri í gistihúsinu með kraftmiklu:  NEI-i og þegar Jósef hefði bent honum á að illa stæði á og hvort öruggt væri að hann gæti ekki fengið gistilpláss átti Villi að svara afgerandi: ,,Nei, það er ekkert pláss laust.“

Þegar kom að frumsýningarkvöldinu var leikstjórinn frekar taugaveiklaður vegna þátts Villa í sýningunni og þegar bestu leikarnir María og Jósef komu gangandi að gistiheimilinu Jósef spurt kurteisilega: ,,Er nokkuð laust gistipláss hjá þér?“ svaraði Villi, aðeins stamandi en ákveðið,: ,,Nei!“ andaði leikstjórinn léttar. Jósef og María gátu ekki leynt vonbrigðum sínum og sýndu trúverðugan leik þegar Jósef spurði: ,,En sjáðu til konan mín er við það að fara fæða barn og við höfum ekki í nein hús að vernda“.  Á því augnabliki gerðist eitthvað innra með Villa sem rauk til, dró Jósef áfram inn í gisthúsið og sagði: ,,Heyrðu, JÚ, þið megið gista í rúminu mínu, ég sef bara á gólfinu“ og svo dró Villi Jósef og Maríu inn í gistihúsið og batt enda á jólahelgileikinn þetta árið.

Í fyrstu fussuðu nokkrir og sveiuðu yfir háttsemi Villa en síðan áttuðu leikhúsgestir sig á að aldrei áður hafði jólaboðskapurinn verið túlkaður jafn fallega og einlæglega og þetta kvöld, boðskapur Krists um að mikilvægi þess að gæta að þörfum náungans og leggja eitthvað á sig til að öðrum líði betur, ljómaði innra með öllum sem sáu helgileikinn fluttan þetta kvöld.

---

Sú þjóð sem gengur í myrkri sér mikið ljós,

Við ljósið birtist okkur svo vel hinum íslensku sálmum.

frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
:,: meinvill í myrkrunum lá. :,:

Frumglæði ljóssins –hugsið ykkur hvað þetta er vel sagt: sá sem fyrstur glæddi ljósið

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský

Konungur lífs vors og ljóss

Hún nálgast senn hátíð ljóss og friðar.

Við finnum hvað það er gott að hafa jólaljósin til að lýsa upp þennan myrkasta tíma ársins og við vitum svo vel að myrkur getur aldrei hrakið myrkrið á brott, það gerir einungis ljós og birta.

Hatur mun heldur aldrei hrekja hatrið á brott, það gerir einungis kærleikur og umhyggja.

Ljósið sem hátíð ljóss og friðar snýst um er leiðarljós sem lýsir okkur veg réttlætis og góðra verka, ljósið sem lýsti fjárhirðum og vitringum forðum daga er líka ljós við megum þiggja birtuna frá. Því hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins, segir Jesús.

Það er mikil eftirspurn eftir réttlæti í þjóðfélaginu og hefur verið allar götur frá hruninu og Guð gefi að sannleikurinn komi fram í málefnum þjóðarinnar og hrunsins, að svo verði að þeir sem sannarlega bera sekt, hljóti málagjöld sem verða makleg, en réttlætinu skulum við alltaf ná fram með réttlæti, en aldrei ranglæti.

Þegar við horfum á jólahátíðina í því ljósi birtunnar frá Bethlehem geta hjörtu okkar fyllst þakklæti, þar sem hlutirnir sem okkur finnast leiðinlegastir við jólahátíðina verða jafnframt að þakklæti.

Ef þér fundust jólafötin eitthvað þrengri í ár en í fyrra máttu þakka fyrir að þú hefur alla vega nóg að borða.

Ef þér fannst leiðinlegt að ganga frá og vaska upp eftir jólamatinn máttu samt mun að þú átt ástvini til að ganga frá eftir.

Ef þér fannst leiðinlegt að standa í jólahreingerningunni máttu þakka fyrir að þú átt heimili til að þrífa

Og ef þér fannst sá sem situr á næsta bekk syngja full falskt í jólasálminum þá máttu þakka fyrir að þú hefur alla vega heyrn.

Við höfum margt að þakka fyrir.

Það er gaman og þakkarvert að koma hér í Rótarýklúbb Kópavogs og sjá það góða starf sem hér er unnið, og þegar maður les um markmið Rótarý sér maður hinn sterka samhljóm sem er á milli þeirra góðu hugsjóna og hinna kristnu gilda og þjónustu. En sjálfur þekki ég líka til hins góða starfs Rótarý í gegnum Aðalstein Sigurðsson, fiskifræðings, sem var tengdaafi minn og mikill Rótarý-maður og starfið honum hjartfólgið og ekki síður hlutverk Rótarý-sjóðsins og PolioPlus-átakað allt, sem stefnir að því að útrýma lömunarveiki. 

Mér þótti afar vænt um það þegar Aðalsteinn hnippti í mann á stórum stundum í lífi fjölskyldunnar og hvíslaði því að manni að hann hefði lagt Rótarý-sjóðnum lið umtalsverðar upphæðir við giftingu okkar,  skírnir barnabarna og útskriftir innan fjölskyldunnar, þá var notalegt að vita að þess yrði minnst og lesið á næsta fundi Rotarýklúbbs Seltjarnarness.  Hugmyndina hafði hann fengið þegar erlendur Rótarýfélagi sem vann að Polio-Plus átakinu kvatti íslenska meðbræður sína til að nota merkisáfanga innan fjölskyldunnar með þessum hætti.

En Markmið Rótarý er að efla og örva þjónustuhugsjónina sem grundvöll heiðarlegs starfs og þó einkum að efla og örva:

1. þróun kunningsskapar, svo að hann veiti tækifæri til þjónustu. Þjónustan er ein af grundvallarstefum í kristnum boðskap að þjónusta náungann og Guð.

2. háleitar siðgæðiskröfur í viðskiptum og starfi, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa og viðurkenningu þess, að sá, sem innir gott starf af hendi í starfsgrein sinni, sé samfélaginu þarfur þegn. Þessi grein minnir á grundvöll siðgæðis í viðskiptum sem betur hefði verið fylgt í íslensku samfélagi en jafnframt á mikilvægi hverrar starfsgreinar fyrir sig, sem aftur leiðir hugann að orðum Marteins Lúthers Kings sem sagði:

Ef maður er kallaður til að vera götusópari, þá ætti hann að sópa göturnar eins og Michaelangelo málaði, eins og Beethoven samdi tónlist, eins og Shakespeare orti sonnettur. Hann ætti að sópa göturnar svo að Drottinn himins og jarðar nemi staðar og segi. ,,Hér var mikill götusópari sem leysti verk sitt vel af hendi.“

Starf Rótarý er mikið og gott og það byggir á hinum kristna anda og sem hátíð ljóss og friðar færir okkur. Hversu gott væri ekki ef við öll myndum reglulega spyrja okkur?

Er það satt?

Er það drengilegt?

Eykur það velvild og vinarhug?

Er það öllum til góðs?

Guð gefi okkur öllum Gleðileg jól og gott farsælt komandi ár.

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning