Fréttir
  • dank-ran1-300x300

9.12.2009

Hátíðartónleikar Rótarý 2010

Víkingur Heiðar Ólafsson og Ran Dank leika

Eins og mörg undanfarin ár fagna Rótarý félagar nýju ári með hátíðar­tónleikum.   Listamennirnir sem fram koma eru tveir frábærir ungir píanóleikarar, þeir Víkingur Heiðar Ólafsson og  Ran Dank.  Munu þeir leika fjórhent á píanó.
Tónleikarnir verða föstudagskvöldið 8. janúar nk. kl. 20:00 og að venju í Salnum í Kópavogi. Tónleikarnir verða ekki endurteknir.

 

Miðar verða eingöngu seldir í gegnum miðasölukerfið midi.is.  Aðgangur að miðum er takmarkaður við Rótarýfélaga og gesti þeirra og einfaldast er smella hér.

Miðaverði er stillt í hóf eða kr. 3.900.  Boðið verður upp á léttar veitingar (freyðivín og konfekt) í hléi.  Þar sem um hátíðartónleika er að ræða eru Rótarýfélagar og gestir þeirra hvattir til að mæta prúðbúnir til þessarar frábæru skemmtunar sem tengd er þeim ánægjulega þætti í starfsemi Rótarý á Íslandi að styrkja efnilegt ungt tónlistarfólk okkar til náms.

Nú sem ávallt fyrr hefur Jónas Ingimundarson reynst ráðhollur um efni tónleikanna. Stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý undir formennsku Ólafs Egilssonar hefur í samvinnu við klúbb umdæmisstjóra, nú Rótarýklúbb Reykjavík Breiðholt, unnið að undirbúningi, en aðalhlutverk stjórnarinnar er sem kunnugt er að velja árlega styrkþega sjóðsins. Að venju verður tilkynnt um styrkþega við þetta tækifæri.

Umsóknir um Tónlistarstyrk Rótarý voru fleiri en nokkru sinni fyrr og sjaldan eða aldrei hefur verið erfiðara en nú að velja styrkþega úr hópi fjölmargra efnilegra tónlistarmanna.  Þar sem sérlega hart er í ári hjá því unga tónlistarfólki okkar sem þarf að kosta nám sitt erlendis hefur dómnefndin í samráði við stjórn Rótarýumdæmisins ákveðið að veita tvo styrki að þessu sinni. Sveinn H. Skúlason, umdæmisstjóri Rótarý, mun afhenda styrkina á tónleikunum.

Listamennirnir sem fram koma eru tveir frábærir ungir píanóleikarar, þeir Víkingur Heiðar Ólafsson og  Ran Dank.  Munu þeir leika fjórhent á píanó.

vikingur_Heidar_OlafssonVíkingur Heiðar Ólafsson er þrátt fyrir ungan aldur þegar vel kunnur tónlistar­maður.  Hann hefur lokið prófi frá hinum heimsþekkta Juilliard tónlistarskóla í New York og naut þar kennslu þekktra kennara.  Víkingur varð eins og margir Rótarýfélagar minnast fyrstur til að hreppa Tónlistarstyrk Rótarý árið 2005 en hefur einnig hlotið margvísleg önnur verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína.  Hann hefur leikið með hljómsveitum og komið víða fram sem einleikari á tónleikum bæði hér á landi og erlendis.

dank-ran1-300x300Ran Dank er fæddur í Ísrael 1982. Hann hefur lokið prófi frá tónlistar­háskólanum í Tel Aviv og prófi frá Juilliard tónlistarskólanum.  Ran Dank hefur vakið athygli fyrir framúrskarandi hæfileika og unnið til verðlauna og viðurkenninga. Þar á meðal hefur hann hlotið fyrstu verðlaun í samkeppnum píanóleikara bæði í Bandaríkunum og Ástralíu undanfarin ár.

Hinir ungu snillingar munu m.a. flytja verk eftir Bach, Debussy, Ravel og Strauss.  Lýsa kunnugir efnisskránni svo að um hreina „flugeldasýningu“ verði að ræða. Einnig er vonast til að nýju styrkþegarnir láti áheyrendur njóta listar sinnar.

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning