Fréttir

6.7.2009

Fréttir af starfi klúbbanna í upphafi starfsárs

Ritnefnd hvetur klúbbanna til að vera vakandi og senda fréttir af starfseminni

Rótarýfélagar um allt land vilja væntanlega flestir fá fréttir af því sem er að gerast í öðrum klúbbum innan íslensku Rótarýhreyfingarinnar víðs vegar um landið. Slíkt er varla mögulegt án þess að allir hafi aðgang að fréttum að miðlægum gagnagrunni, þ.e. vefsíðu. Vefsíða íslenska umdæmisins er nú orðin aðgengileg til lestrar og stjórnarmönnum allra klúbbanna til að vinna á. Ritnefnd vefsíðu Rótarýumdæmis 1360 getur hins vegar ekki sett þar inn fréttir nema með aðstoð ritara klúbbanna eða annara þeirra sem viðkomandi klúbbur tilnefnir. Þegar stjórnarskipti eiga nú sér stað um allt land skulu nýir stjórnarmenn brýndir til dáða og hvattir til að senda ritnefnd stuttar fréttir af starfseminni eða einhverju markverðu sem klúbbfélagar eru að taka sér fyrir hendur á hverjum tíma.

,,Ritnefnd íslenska Rotarýumdæmisins á sér ekki langa sögu í núverandi mynd. Í umdæmisstjóratíð Guðmundar Björnssonar í Keflavík 2006-2007 hafði ég undirritaður samband með tölvupósti 11. júlí 2006 og tók undir orð umdæmisstjóra í mánaðarbréfi hans þar sem hann var að hvetja rótarýfélaga til að skoða heimasíðuna www.rotary.is en benti jafnframt á að því færi fjarri að hún væri góð og sá samskiptatengill milli rótarýfélaga sem hún ætti að vera. Umdæmisstjóri svaraði að bragði og niðurstaðan varð sú að ég samþykkti að sitjast í ritnefnd ásamt Vigdísi Stefánsdóttur í Rótarýklúbbi Grafarvogs. Litlar fréttir voru á þessum tíma að berast frá klúbbum víðs vegar um landið inn á vefsíðu umdæmisins og eins miðluðust litlar fréttir milli klúbba almennt. Vefsíðunefnd umdæmisins hefur með tölvupósti og símhringingum reynt að fá fréttir af starfsemi klúbbanna og m.a. var útbúinn listi á árinu 2007 og sendur öllum forsetum og riturum íslensku rótarýklúbbanna þar sem þeim var úthlutaður ákveðinn mánuður til að senda inn fréttir. Bent var á að fréttirnar gætu verið um eitthvað sem hefði gerst í klúbbnum, eitthvað sem ætti eftir að gerast eða eitthvað annað fréttnæmt sem viðkomandi klúbbur vildi deila með félögum í öðrum klúbbum víðs vegar um landið. Því miður gekk þetta ekki eftir, og þar eigum við í ritnefnd einhverja sök með því að vera ekki nógu ákveðin að ganga eftir fréttum.

Fyrsta skipunarbréf/erindisbréf ritnefndar umdæmis 1360 barst hins ekki fyrr en haustið 2008 frá umdæmisstjóra, Ellen Ingvadóttur, þar sem hlutverk nefndarinnar var tilgreint, þ.e. að ritstýra heimasíðu umdæmisins.

Samstarf við vefsíðunefnd

Undirritaður sótti nokkra fundi með þeim Guðna Gíslasyni og Ólafi Ólafssyni í vefsíðunefnd þar sem telja mátti eðlilegt að ritnefnd hefði eitthvað um það að segja hvernig vefsíðan liti út, og voru það mjög ánægjulegir fundir og fræðandi. Á seinni stigum gerðar vefsíðunnar hefur ritnefnd hins vegar ekki setið fundi með vefsíðunefnd en verið í sambandi um ýmsa hluti, svo sem hvernig aðkoma nefndarmanna væri að síðunni og fleira. Það gæti hins vegar verið betra, en stendur til bóta.

Til þess að vefsíða Rótarýumdæmisins 1360 komi að fullum notum þurfa fréttir að vera þar oftar og frá fleiri klúbbum en nú er. Því væri gott að stengja þess heit nú að gera þar bragabót á og gera vefsíðuna að því samskiptaneti milli klúbba og klúbbfélaga sem stefnt var að í upphafi. Ég undirritaður hef samþykkt að sitja áfram sem formaður ritnefndar næsta ár í umdæmisstjóratíð Sveins H.  Skúlasonar, og finnst eðlilegt að í haust liggi fyrir áætlun ritnefndar um það hvernig best er að ná til klúbbanna með fréttir, og þá allra klúbbanna. Hugsanlega væri hægt að skipa í klúbbunum sérstaka tengiliði við ritnefndina sem hægt væri að hafa samband við, m.a. til að létta á störfum forseta og ritara. Þessar fréttir þyrftu ekki að koma alveg tilbúnar, gætu verið í viðtalsformi við ritnefndarmann eða að viðkomandi sendi upplýsingar í stuttu máli sem frétt frá klúbbnum yrði skrifuð upp úr.

Ef fulltrúar frá öllum klúbbum leggjast á árarnar verður þetta létt verk. SAMEINAÐIR STÖNDUM VÉR!        

Með rótarýkveðju,

Geir A. Guðsteinsson, formaður ritnefndar, félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs.

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning