Loksins tókst það!
Skýrsla Steinars Friðgeirssonar sem formanns útbreiðslunefndar hófst á þessari upphrópun: Loksins tókst það! Þ.e. að stofna klúbb nr. 30 á Íslandi í Rótarýumdæmi 1360, en eins og flestum er kunnugt er það krafa alþjóðasamtaka rótarýs (Rotary International) að í hverju umdæmi séu a.m.k. 30 klúbbar og ekki færri en 1000 rótarýfélagar. Þar með var langþráðu markmiði náð en það gerðist ekki fyrir frumkvæði eða atbeina útbreiðslunefndar eða einstakra klúbba umdæmisins eins og oftast er heldur voru hér á ferðinni áhugasamir einstaklingar sem annað hvort voru eða höfðu áður verið félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs.
,,Flestir þekkja söguna um hinn nýja klúbb sem nefnist Rkl. Þinghóll – Kópavogur og sem stofnaður var þann 26. febrúar sl. að viðstöddum um 50 manns,” segir Steinar. ,,Eftir aðkomu okkar Kristjáns formanns félagaþróunarnefndar umdæmisins og síðar Ellenar umdæmisstjóra tók Rkl. Reykjavík – Breiðholt við og gerðist móðurklúbbur með öllum þeim skyldum sem því fylgja. Stofnun klúbbsins tókst með ágætum undir öruggri stjórn móðurklúbbsins og voru 34 vígðir inn í klúbbinn sem stofnfélagar. Öll gögn vegna fullgildingar hafa verið send til skrifstofu Rotary International í Sviss og gera má ráð fyrir að fullgildingarhátíðin fari fram í sumar eða í haust.
Eftir heiðarlega tilraun sem gerð var veturinn 2007-8 til að stofna nýjan klúbb á Reyðarfirði þar sem haft var samband við á fjórða tug líklegra heimamanna var ákveðið í maí á síðasta ári að fresta málinu fram á haust. Ég hafði samband við forseta klúbbanna í Neskaupstað og á Héraði á sl. hausti og vakti málið upp að nýju. Ekki varð okkur ágengt í þetta sinn heldur og var því ákveðið í vor að fresta málinu enn á ný. Á þessu og síðasta starfsári var einnig athugað með að stofna nýjan klúbb á Höfn í Hornafirði og að endurvekja klúbbinn í Stykkishólmi en ekki höfum við í útbreiðslunefndinni haft erindi sem erfiði.
Ég skila nú af mér í annað sinn sem formaður útbreiðslunefndar en mun láta staðar numið í bili a.m.k. Eftir að hafa komið að útbreiðslumálunum um hríð er það skoðun mín að vænlegast sé að leita frekar leiða til að stofna nýja klúbba á höfuðborgarsvæðinu og SV – lands heldur en í hinum dreifðu byggðum landsins. Klúbbar á landsbyggðinni eiga sumir hverjir í vök að verjast og tryggja verður eins og unnt er velferð þeirra. Ekki er þó öll nótt úti ennþá með að unnt verði að ýta nýjum klúbbi úr vör á Reyðarfirði á næstu misserum en ég dreg í efa að önnur byggðalög á landsbyggðinni þar sem ekki eru þegar starfandi klúbbar séu nógu mannmörg til þess að þau beri nýjan rótarýklúbb svo að vel sé.
Mikilvægt er að auka þátttöku kvenna í Rótarý hér á landi en hlutfall þeirra er nú komið upp í um 17% á móti því að þegar ég var umdæmisstjóri fyrir 8 árum síðan var hlutfallið um 10%. Með aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu er ekki nema sjálfsagt að félagasamtök eins og Rótarý sem byggja á þátttöku félaga úr sem flestum starfsgreinum standi konum opin sem og öðrum sem láta að sér kveða í atvinnu- og félagslífi. Þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst í klúbbi mínum Rkl. Reykjavík – Árbær að þrjár konur voru teknar inn sem félagar og eru þær fyrstu konurnar í okkar röðum í 19 ára sögu klúbbsins. Eftir því sem ég kemst næst eru þá einungis 5 klúbbar á landinu sem ekki hafa konur innanborðs.
Á þessu starfsári hefur okkur tekist að uppfylla kröfur alþjóðaforseta um 10% aukningu í umdæminu. Núna eru liðlega 1200 rótarýfélagar á landinu sem er eitt hæsta hlutfall í heiminum miðað við hvern íbúa. Vegna endurnýjunar í klúbbunum þurfum við að vera vakandi og virk yfir því að fá yngra fólk einnig til liðs við okkur. Við í Árbænum settum okkur það markmið að ekki skyldi taka inn nýja félaga sem væru yfir fimmtugt. Það er út af fyrir sig ágæt viðmiðun en þegar á reynir og upp koma tillögur um góða og gegna menn í þjóðfélaginu sem eru eldri er ekki hægt annað en fagna áhugasömum mönnum þrátt fyrir að þeir séu jafnvel orðnir sjötugir eins og við lentum í á liðnum vetri.”
Áherslur í félagaöflun
,,Hvað er það sem við rótarýfélagar viljum leggja áherslu á við félagafjölgun og í útbreiðslu hreyfingarinnar? Góður og uppbyggjandi félagsskapur, samfélagsþjónusta og ekki síst störf hreyfingarinnar að mannúðar- og menningarmálum hér heima og erlendis. Á alþjóðavettvangi hafa mannúðar- og menningarmál verið og verða áfram aðalsmerki hreyfingarinnar eins og við fáum að fræðast meira um hér á eftir hjá þeim Ólafi Helga og Huldu Dóru. Þegar fjármálakreppa skellur á og uppvíst er um alla þá spillingu og græðgi sem hefur grasserað í fjármála- og viðskiptaheiminum eru það einnig aðrir þættir í hugsjónum og starfssemi Rótarýhreyfingarinnar sem eiga enn brýnna erindi en áður út í samfélagið. Það sem ég á við er heiðarleiki í samskiptum, hógværð og þjónustulund við aðra samfélagsþegna. Aðalsmerki hreyfingarinnar sem felst í orðunum „Service above self“ eða þjónaðu einhverju æðra sjálfum þér í lífinu hefur sjaldan átt betur við en núna. Þessi hugsun endurspeglast einnig í fjórprófi hreyfingarinnar sem við í Árbænum útleggjum í bundnu máli þannig:
Er það satt og er það rétt?
Er það siður fagur?
Verður af því vinsemd þétt?
Vænkast allra hagur?
Hvað hefur eiginlega verið að gerast hjá okkur Vesturlandabúum? Eru samfélög okkar tærð móralskt innan frá? Þegar þjóðfélögin eru skoðuð í breiðari pólitískum, efnahagslegum og félagsfræðilegum skilningi þá var löngu ljóst að þau stefndu beint í stóráfall bæði með tilliti til efnahags- og umhverfismála.
Við trúum á endalausar framfarir sem laga eiga allan vanda jafnt og þétt. Þannig notum við olíu og gas eins og til væru ótakmarkaðar birgðir af þeim í heiminum. Líklega fer að bera á skorti á olíu og gasi innan 2 – 3 áratuga eða jafnvel enn fyrr og það áður en tekst að beisla kjarnorkusamrunann. Ný þekking, meiri þægindi, stöðugar endurbætur, nýjar stíltegundir og meiri og meiri kröfur til lífsgæða hafa einkennt viðhorf okkar. Í stað þess að takmarka okkur aukum við ávallt kröfur okkar og eftirspurn sem er einmitt vélaraflið í framleiðsluvélinni. Því meiri eftirspurn þeim mun meiri framleiðsla. Einstaklingurinn þjónar þannig samfélaginu best með sem mestum ego-isma.
Eilíf uppspretta auðs og allsnægta er ekki til!
Íbúar jarðarinnar eru nú liðlega 6 milljarðar og á næstu áratugum vex mannfjöldinn í 10 milljarða síðan í 15 milljarða o.s.frv. ef ekkert verður að gert. Eitt aðal viðfangsefni Alþjóða Rótarýhreyfingarinnar í kjölfar herferðarinnar gegn lömunarveikinni (polio plus) á að vera að hjálpa til við að stemma stigu við fólksfjölgun á jörðinni. Ef allir jarðarbúar nytu sömu gæða og þeir liðlega einn milljarður sem nýtur þeirra í dag á Vesturlöndum yrði fljótt gengið á auðlindir jarðar og umherfisstóráfall ekki umflúið. Hvernig má það vera að hjá þeim um 20% mannkyns sem búa við allsnægtir er alltaf krafist að fá meira og meira og það þrátt fyrir að þeir nýti sér ekki bara sínar eigin auðlindir heldur einnig auðlindir annarra með arðráni eins og á sér víða stað t.d. í Afríku? Í frábærri mynd franska ljósmyndarans Yann Arthus-Bertrand er nefnist Heimkynni (Home) og sem sýnd var nýlega í sjónvarpinu (RÚV) kemur m.a. fram að 20% jarðarbúa ráða yfir 80% auðlindanna og að því er spáð að í lok þessarar aldar verði nær allar auðlindir jarðar uppurnar vegna taumlausrar neyslu mannanna.
Slaka verður á lífsgæðakröfum og vellystingu á Vesturlöndum og auka áherslu á bætt siðferði í viðskiptum og samskiptum manna á milli. Boðskapur Rótarýhreyfingarinnar út í samfélagið á að leggja áherslu á siðbót, dyggð og þakklæti.
- Siðbót: Rótarýhreyfingin setur á oddinn háleitar siðgæðiskröfur í viðskiptum og starfi, viðurkenningu á gildi allra nytsamra starfa og viðurkenningu þess að sá sem innir gott starf af hendi í starfsgrein sinni sé samfélaginu þarfur þegn.
- Dyggð: Lifum í jafnvægi við náttúru og umhverfi með takmarkaðri kröfum og eftirspurn en viðgengist hefur hingað til. Leggja ber áherslu á þjónustu við samborgarana og samfélagið eins og við Rótarýmenn höfum á okkar stefnuskrá.
- Þakklæti: Þrátt fyrir allt er lífið gott og öll sköpun falleg. Þrátt fyrir að lífið sé fullt af óréttlæti og illsku, og enda þótt biturleiki, reiði og uppreisn séu eðlileg viðbrögð við svikum og siðblindu þá megum við aldrei gleyma því að þakka fyrir lífið, tilveruna og gera okkar besta þrátt fyrir mótlæti.
Rótarýhreyfingin á að vera með þann boðskap út í samfélagið að við þurfum að endurmeta umhverfi okkar, fjölskyldu okkar, auka virðingu fyrir takmörkunum, skilningi á að allt sé einhvers virði, finna aftur persónulega ábyrgð, móralskan raunveruleika.
Siðbót, dyggð og þakklæti vekja nýjar vonir!,” segir Steinar Friðgeirsson.