Fréttir
  • Hvatningarverðlaun Rkl. Straums 2009. María Agnes og María Kristín

5.6.2009

Nunnurnar fá Hvatningarverðlaun Straums

Rótarýklúbburinn Straumur afhendir Hvatningarverðlaun sín í annað sinn

Það var einhugur meðal félagsmanna í Rkl. Straumur-Hafnarfjörður þegar kom að vali á þeim sem fengju önnur hvatningarverðlaun klúbbsins. Ákveðið var að verðlaunin skyldu ganga til Karmelsklaustursins í Hafnarfirði og karmel systra en svo skemmtilega vill til að einmitt á þessu ári eru liðin 70 ár síðan Karmelklaustrið var stofnað og 25 ár síðan þær nunnur sem nú eiga þar heima komu til landsins. Verðlaunin voru afhent í gær

 

Hvatningarverðlaun Rkl. Straums 2009. María Agnes og María KristínÍ umsögn um verðlaunin segir: "Það er í raun óþarfi að rökstyðja þetta val, svo lifandi veruleiki er klaustrið í hugum og sögu Hafnfirðinga. Karmelklaustrið og systurnar sem þar starfa hafa veitt ómældum fjölda styrk og stuðning með fyrirbænum sínum og nærveru í gegnum árin, ef til vill aldrei fremur en nú á þessum erfiða vetri sem ný er liðinn fyrir land og þjóð. Til þeirra geta allir leitað nafnlaust og öllum er vel tekið. Klaustrið hefur líka gengt hlutverki menningarmiðstöðvar. Garðrækt systranna er rómuð, myndir, kerti og skrautgripir sem þær hafa búið til má finna á flestum heimilum bæjarins og tengjast stærstu stundum í lífi margra fjölskyldna, í gleði og í sorg. Og í hugum margra eru engin jól nema tekið sé þátt í jólamessunni á miðnætti í klaustrinu. Karmelklaustrið og karmelsystur veita þannig hvatningu, von, og gleði út í samfélagið og hafa gert í 70 ár. Fyrir það viljum við í Straumi nú fá að veita klaustrinu hvatningarverðlaun okkar."

Hvatningarverðlaun Rkl. Straums 2009Systurnar María Agnes og María Kristín veittu verðlaununum viðtöku á fundi klúbbsins sem haldinn var í golfskálanum á Hvaleyrinni í gær. Sögðu þær verðlaunin hafa komið sér mjög á óvart og væru þær afar þakklátar fyrir þá viðurkenningu á starfi þeirra sem þessi verðlaun væru. Þær elskuðu Ísland og Íslendinga og væru mjög ánægðar með að vera hér og finna að starf þeirra væri metið. Í forföllum forseta afhenti f.v. forseti Straums sr. Þórhallur Heimisson verðlaunin.

Fyrstu Hvatningarverðlaun Straums hlaut Geir Bjarnason forvarnarfulltrúi á síðasta ári.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning