Fréttir

27.5.2009

Fiskikvöld hjá Rótarýklúbbi Keflavíkur til mannúðarverkefna

Öllu söfnunarfé bauksins síðasta starfsárs varið til styrktar verkefni sem heitir ShelterBox ( neyðarbox ) og það sama hefur verið samþykkt fyrir núverandi starfsár. 

Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur í gegnum tíðina eins og flestir klúbbar hér á landi tekið þátt í ýmsum verkefnum til stuðnings mannúðarmálum í anda hreyfingarinnar. Hafa félagar verið einhuga um þau verkefni sem stjórn á hverjum tíma hefur lagt áherslu á, bæði með reglulegum framlögum í Rótarýsjóðinn og einnig til einstakra verkefna.

Framlög í Rótarýsjóðinn er einn af hornsteinum Rótarý og hafa framlög í sjóðinn ávallt verið hluti af rekstraráætlun hvers starfsárs í  klúbbnum og eru félagar sammála um nauðsyn þess að leggja sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis Rótarýhreyfingarinnar.  Jafnframt hafa ýmis verkefni klúbbsins skilað frekari framlögum í sjóðinn og eru félagar stoltir af því að vera hluti af þeim mörgu verkefnum sem sjóðurinn hefur lagt lið í gegnum tíðina.

Auk áætlana um framlög í Rótarýsjóðinn hafa félagar í RK staðið fyrir frekari framlögum til einstakra verkefna. Árlega er haldið „fiskikvöld“ sem er  hluti af fjáröflun kúbbsins og hefur þátttaka verið mjög góð, bæði af félögum og gestum þeirra og því skilað klúbbnum ágætum tekjum til góðra verka.  Einnig hafa félagar m.a. lagt fram frjáls framlög í sérstakan bauk á fundum klúbbsins og safnast þegar saman kemur.  Afrakstur þess fjár sem þannig safnast er lagt til styrktar mannúðarverkefna og/eða verkefna á vegum R.I.  Á síðasta starfsári var samþykkt að ráðstafa öllu söfnunarfé bauksins þess starfsárs til styrktar verkefni sem heitir ShelterBox ( neyðarbox ) og það sama hefur verið samþykkt fyrir núverandi starfsár.  ShelterBox verkefnið er einstak að mörgu leiti en það byggir á þeirri einföldu hugmynd að þegar hörmungar dynja yfir hvort sem það eru jarðskjálftar, eldgos, flóð, stríð eða annað á þessari jörð, þá er það fyrsta sem þarf að gera er að koma búnaði til fólks svo það geti haft aðstöðu til að dvelja í við þolanlegar aðstæður. Í einu neyðarboxi er tjald fyrir allt að 10 manns til að dvelja í ásamt ýmsum búnaði. Hugmyndin að þessu verkefni á Tom Henderson rótarýfélagi í Rotary Club of Helston-Lisard á Bretlandi en verkefnið hófst árið 2001 og er enn stýrt þaðan en hefur vaxið verulega og er í dag starfandi í nokkrum heimsálfum. Er nú svo komið að þetta er það verkefni sem fyrst er hugsað um þegar hörmungar eiga sér stað. Á það við hvort sem það eru jarðskjálftasvæðin á Ítalíu og Pakistan eða  stríðshörmungarnar á Gaza svæðinu, flóð í Namibíu, skógareldar í Ástralíu og Súdan og þannig mætti lengi telja. 

Það virðast endalaus verkefni fyrir slíka starfsemi og eru rótarýfélagar í Keflavík stoltir af því að geta lagt slíku mannúðarverkefni eitthvert lið, enda er það starfrækt í hinum sanna anda Rótarý þar sem það er öllum til góðs.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning