Tónlistarstyrkir Rótarý afhentir
Afhending styrkja úr Tónlistarsjóði Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi fór fram á hinum árlegu stórtónleikum Rótarý í Salnum í Kópavogi föstudagskvöldið 4. janúar 2013. Þeir Fjölnir Ólafsson, barítónsöngvari og Matthías Ingiberg Sigurðsson, klarínettuleikari og tónsmiður hlutu styrkina að þessu sinni, kr. 750 þús. hvor.
Þetta er í níunda sinn sem Rótarýhreyfingin á Íslandi veitir ungu, efnilegu tónlistarfólki styrki úr tónlistarsjóði sínum. Í haust var auglýst eftir styrkþegum og sóttu 19 ungir tónlistarmenn um styrk. Þeir Kristján Haraldsson, umdæmisstjóri, Rkl. Ísafjarðar og Erlendur Hjaltason, Rkl. Reykjavík Austurbær, formaður stjórnar tónlistarsjóðsins, fluttu ávörp í upphafi tónleikanna. Erlendur gerði grein fyrir niðurstöðu stjórnarinnar en Kristján Haraldsson afhenti þeim Fjölni og Matthíasi heiðursskjöl sem útnefningunni fylgja. Á myndinni eru talið frá vinstri: Matthías Ingiberg Sigurðsson, Fjölnir Ólafsson, Kristján Haraldsson og Erlendur Hjaltason.
Stórtónleikarnir voru haldnir fyrir fullu húsi að vanda og var efnisskrá þeirra hin glæsilegasta. Óperusöngvararnir Þóra Einarsdóttir, sópran og Gissur Páll Gissurarson, tenór fluttu verk eftir Mascagni, Schubert, Bizet og Gounod. Undirleikari var Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari. Síðan komu styrkþegarnir fram. Fjölnir Ólafsson söng lög eftir Schubert en Matthías Ingiberg flutti klarinettuverk eftir Denisov með þátttöku óperusöngkonunnar Þóru Einarsdóttur. Kynnir á tónleikunum var Sigurður Pálsson, rithöfundur, Rkl. Reykjavíkur.
Sérstakur ráðgjafi og skipuleggjandi tónleikanna var Jónas Ingimundarson, píanóleikari, Rkl. Reykjavíkur, en framkvæmdastjóri af hálfu klúbbs umdæmisstjóra var Hörður Högnason. - Ljósm. Markús Örn Antonsson