Saga Rótarý á Íslandi

Saga Rótarý á Íslandi

Rótarýhreyfingin barst til Íslands á kreppuárunum

Fyrsti klúbburinn var stofnaður í höfuðborginni hinn 13. september árið 1934 og nefndist Rótarýklúbbur Reykjavíkur. Nú starfa 28 klúbbar á landinu og félagsmenn eru um 1100. Fyrsta tilraun til stofnunar Rótarýklúbbs hér á landi mun hafa verið gerð um 1920 og stóð fyrir henni Rótarýklúbburinn í Hull í Englandi. Ráðgert var að stofna klúbbinn í Hafnafirði, en af því varð ekki, enda var á þeim tíma ekkert samkomuhús eða veitingastaður í bænum. Árið 1933 eða snemma árs 1934 barst Ludvig Storr, ræðismanni Dana í Reykjavík, fyrirspurn frá félögum í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar þess efnis, hvort unnt væri að stofna klúbb á Íslandi. Ludvig Storr stakk upp á að Knud Zimsen, fyrrum borgarstjóri í Reykjavík, tæki málið að sér og sú varð raunin. Tveir Rótarýfélagar frá Hannover í Þýskalandi og Helweg-Mikkelsen lyfsali og félagi í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar áttu drýgstan þátt í því að Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 13. september 1934, en í honum voru upphaflega 23 félagar. Stofnbréf handa klúbbnum var samþykkt í Chicago 31. mai 1935; hann var númer 3842 og tilheyrði 75. umdæminu, sem var Danmörk.

Sérstakt umdæmi

Fleiri klúbbar voru stofnaðir hér á landi næstu árin: á Ísafirði og Siglufirði 1937, á Akureyri 1939, Húsavík 1940 og í Keflavík 1945. Þegar samband Íslands og Danmerkur rofnaði vegna heimsstyrjaldarinnar síðari, tóku íslensku klúbbarnir upp beint samband við aðalskrifstofuna í Bandaríkjunum. Þegar á árinu 1941 var tekið að huga að því, hvort Ísland gæti orðið sérstakt umdæmi, en beiðni þess efnis fékk ekki byr undir vængi fyrr en eftir lýðveldisstofnunina 17. júni 1944. Þegar Danir sýndu málinu vidsemd og samþykktu aðskilnaðinn, var ekkert því til fyrirstöðu að ósk okkar yrði uppfyllt. Það tók þó tíma og kostaði ferðalög og skriffinnsku, sem sérstök undirbúningsnefnd innti af höndum, en hún var skipuð þeim Guðmundi Hlíðardal, Steingrími Jónssini og Knud Zimsen. Ísland varð sérstakt umdæmi frá 1. júlí 1946 og hlaut þá númerið 74, en nú er það 1360. Fyrsti umdæmisstjórinn var dr. Helgi Tómasson, en annar í röðinni var Óskar J. Þorláksson. Þeir gengdu báðir embættinu tvö ár hvor, en síðan hafa umdæmisstjórar starfað í eitt ár. Torfi Hjartarson, ritari Rótarýklúbbs Reykjavíkur, lauk skýrslu sinni um starfsemi klúbbsins starfsárið 1945-1946 með þessum orðum: „Umdæmisnefndin hefur leyst af hendi mikið starf og gott, og er það ekki síst henni að þakka, að íslensku klúbbarnir geta nú heilsað nýju starfsári sem sjálfstætt íslenskt Rótarýumdæmi.“

Vöxtur og viðgangur

Á árinu 1946 voru klúbbarnir hér á landi aðeins sex, en næsta áratuginn fjölgar þeim ört. Þá eru átta klúbbar stofnaðir: Í Hafnarfirði 1946, á Akranesi 1947, Sauðárkróki og Selfossi 1948, í Borgarnesi 1952, Ólafsfirði og Vestmannaeyjum 1955 og Stykkishólmi 1956. Og áfram heldur vöxtur og viðgangur íslensku Rótarýhreyfingarinnar. Á sjöunda áratugnum eru stofnaðir sjö nýjir klúbbar: í Kópavogi 1961, Reykjavík-Austurbæ 1963, í Neskaupstað, á Héraði og í Garðahreppi 1965, Rangárþing 1966 og Ólafsvík 1968. Síðan dregur úr fjölguninni á áttunda og níunda áratugnum; stofnaður er klúbbur á Seltjarnarnesi 1971, í Mosfellssveit 1981 og tveir nýjir í Reykjavík, í Breiðholti 1983 og Árbæ 1990. Sama ár hætti Siglufjarðarklúbburinn störfum, en síðan hafa 6 klúbbar verið stofnaðir: Rótarýklúbur Eyjafjarðar 1991, Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg 1995, Rótarýklúbburinn Straumur, Hafnarfirði 1997, Rótarýklúbburinn Borgir, Kópavogi 2000, Rotary Reykjavík International 2005




Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning